laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frábær þjálfun fyrir hrossin -

14. júlí 2010 kl. 14:43

Frábær þjálfun fyrir hrossin -

Að temja og þjálfa hross með því að fara í nokkra daga ferð og láta hrossin hlaupa frjáls í rekstri má líklega kalla sér íslenska þjálfunaraðferð.

Þrátt fyrir ýmsar nýjungar með tækjum og tólum til þjálfunar er ekki annað að sjá en að þessi aðferð sé enn við lýði hér á landi og ekkert sem komi í staðinn fyrir hana.

Eiðfaxi var á ferð í Flóanum í gær og rakst þar á hóp sem var að leggja á stað í rekstur.  Þar var á ferðinni Þórður Þorgeirsson ásamt sínu fólki að koma hrossunum í þjálfun og undirbúa fyrir sýningar.

Að sögn Þórðar er svona þjálfun frábær fyrir hrossin og ekkert sem kemur í staðinn fyrir hana. Hópurinn ætlar að vera á ferðinni með reksturinn i þrjá til fjóra daga og ferðast á milli bæja í Flóanum, ekkert  of skipulagt bara sjá hvernig hrossin virka, „aðalmálið er að koma sér á stað og ekki vera með neitt stress“ sagði Þórður um leið og hann steig á bak gullfallegri rauðri hryssu. 

Sá sem þetta skrifar gat ekki stillt sig um að skoða vandlega hrossin í hópnum, ekki er ósennilegt að í honum hafi verið hross sem eiga eftir að slá í gegn á kynbótasýningum sumarsins.

Eiðfaxi frétti einnig að Erlingur Erlingsson í Langholti hafi ásamt fleirum verið á ferð neðar í Flóanum og hóparnir hist á Ragnheiðarstöðum. Í  þessum tveimur rekstrum hafa líkast til verið samankomin nokkur framtíðar hestefni og væntanlega verið glatt á hjalla hjá mannskapnum.

Það er gott til þess að vita að okkar fremsta sýningarfólk og þjálfarar skuli en nota þessar gömlu góðu íslensku þjálfunaraðferðir og ekki gleyma gildi þeirra. -hg