miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frábær sýning hjá Olil og Álfarni

7. ágúst 2019 kl. 09:25

Olil Amble og Álfarinn

Fyrstu tveimur hollum lokið í fimmgangi

 

 

Hér í morgun hófst forkeppni í fimmgangi en nú er tveimur hollum lokið, í heildina eru þau sex talsins. Tölvukerfið stóð örlítið á sér í morgun og því þurfti að grípa til þess að dómarar lyftu spjöldum.

Ósamræmi dómara var þá töluvert á sumum hestum, en það er spurning hvort þessi bilun á kerfinu hafi tekið úr þeim taktinn, ef svo má að orði komast. Það má einnig hugsa til þess að þegar skeið er dæmt er oft stutt á milli þess að dæma hestinn með taktgalla eða að taka ekki á því og þar af leiðandi verður stór munur á einkunnum. En vegna þessarar bilunar hafa einkunnir fyrir alla keppendur ekki borist ennþá.

Vignir Jónsson var fyrstur í braut, af þeim sem talinn var einn af sigurstranglegri keppendunum fyrir mót. Það er skemmst frá því að segja að hann náði ekki að laða fram það besta í sínum hesti og lenti í því að Viking missti skeifu, en einn dómari gaf honum 0,0 og ekki einkunn. Reglan segir að til þess að dómari gefi núll í einkunn þarf hann að nema það að hesturinn missi skeifu. Þá átti Stian Pedersen fína sýningu, en við fótaskoðun kom þó í ljós að hestur hans, Nói frá Jakobsgarden hafði gripið líttilega á sig og hlaut hann þ.a.l. ekki einkunn.

Caspar Hegardt og Oddi fran Skeppargarden eru áhugavert keppnispar en Oddi er mikill mýktarhestur og glæsilegur á velli.

Olil Amble var síðust í brautina fyrir hlé. Sýning hennar gekk frábærlega og þau Álfarinn greinilega í miklu stuði. Álfarinn var frábær á öllum gangtegundum, sérstaklega var gaman að sjá hversu öruggur hann virðist vera á þeim öllum. Olil og Álfarni var vel tekið af áhorfendum og hlutu mikið klapp að sýningu lokinni en þau eru í fyrsta sæti að svo stöddu.

Nú er hlé á fimmgangi til klukkan 13:30. Á meðan fara fram dómar á sex vetra hryssum og stóðhestum.