miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frábær félagsskapur

1. júní 2014 kl. 13:00

Nína mun starfrækja reiðskóla Topphesta í sumar. Hér er hún ásamt trippinu Fjöður.

Kynslóð eftir kynslóð tileinkar sér hestamennsku hjá Nínu.

Hjónin Jónína Guðbjörg Björnsdóttir og Þórður Rafn Guðjónsson hafa rekið reiðskólann­ Topphesta á hverju sumri í rúmlega 20 ár. Þar er stemningin dálítið eins og á gamal­dags sveitaheimili. Börnum, hestum,­ hundum og köttum ægir saman og alltaf er mikill handagangur í öskjunni.

Rabbi, Nína og hestarnir eru afar vel liðin af þeim sem komið hafa að reiðskólanum gegnum árin. Krakkarnir sem byrjuðu hjá þeim í kringum 1990 og þar eftir hafa haldið við þau tryggð, komið við í hesthúsinu að hjálpa þeim, heim til þeirra í kaffi og boðið þeim til stórviðburða í sínu lífi en við slík tækifæri heldur Nína gjarnan ræðu. Margir þessara krakka hafa svo unnið hjá Nínu og Rabba í reiðskólanum um lengri eða skemmri tíma. „Ég á heilmikið af krökkum sem byrjuðu hjá mér fyrir 20 til 25 árum sem eru bæði búin að læra að vera dýralæknar og líka verið á Hólaskóla og eiga orðið hesta og börn. Börnin þeirra hafa svo verið hjá okkur líka. Það er ógurlega skemmtilegur félagsskapur sem hefur myndast við þetta. Ég ætla að reyna að vera með skólann næsta sumar ef Guð lofar. Ég er alveg hress og svo er hjá mér ungur kennari sem er búinn að vera á Hólum. Ég fór nú sjálf í kennaraskólann, gerði það til þess að fá mér kennararéttindi. Nú er enginn maður með mönnum nema hann sé búinn að vera á Hólum,“ segir Jónína að lokum og nærri má geta að margir verði glaðir að til standi að starfrækja reiðskóla Topphesta í að minnsta kosti eitt sumar enn.

Viðtal við Nínu í Topphestum má nálgast í 5. tölublaði Eiðfaxa. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.