mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frá Meistaradeild - Lið Hrímnis

19. janúar 2011 kl. 22:29

Frá Meistaradeild - Lið Hrímnis

Þriðja liðið sem við kynnum til leiks í Meistaradeild í hestaíþróttum er Hrímnisliðið. Þar er Viðar Ingólfsson liðsstjóri en aðrir liðsmenn eru Snorri Dal, Vignir Siggeirsson og Arnar Bjarki Sigurðarson.

Viðar Ingólfsson, liðsstjóri, stundar tamningar og þjálfun að Kvíarhóli, Ölfusi. Hann er margfaldur Íslandsmeistari, Landsmótssigurvegari í tölti ásamt mörgum öðrum fræknum sigrum. Hann var íþróttaknapi ársins 2008 og gæðingaknapi ársins 2007. Viðar sigraði Meistaradeildina 2007 og 2008.

Snorri Dal er tamningamaður og reiðkennari í Hafnarfirði. Hann sigraði B-flokk gæðinga á Landsmótinu 2006 á Vindheimamelum. Snorri var í íslenska landsliðinu á síðasta Heimsmeistaramóti en auk þess hefur hann unnið fjölda Íslandsmeistaratitla.

Vignir Siggeirsson rekur tamningastöð að Hemlu, Vestur-Landeyjum, ásamt eiginkonu sinni. Hann varð heimsmeistari í tölti 1997 á Þyrli frá Vatnsleysu og hefur verið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótum.

Arnar Bjarki Sigurðarson er ungmenni og kemur úr hestamannafélaginu Sleipni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið að gera góða hluti í yngri flokkum. Hann er sigurvegari Meistaradeildar UMFÍ, Norðurlandameistari og Íslandsmeistari.

Icesaddles er framleiðandi gæða hnakka og reiðtygja undir vörumerkinu Hrímnir. Hnakkarnir eru framleiddir af einum virtasta söðlasmiði heims, en auk Hrímnis framleiðir hann hnakka fyrir marga af fremstu reiðmönnum erlendra hestakynja. Lögð hefur verið áhersla á gæði, næmni og gott jafnvægi, en hnakkurinn hefur verið þróaður í samstarfi við stórfyrirtæki á við Dupont og Bayer. Hnakkarnir eru seldi í 15 löndum og notaðir af fjölda fagmanna.