mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frá hitafundi um kynbótasýningar á hringvelli II

17. febrúar 2012 kl. 15:51

Frá hitafundi um kynbótasýningar á hringvelli II

Guðlaugur hóf mál sitt á að fara yfir þetta mál og sagði m.a. annars í upphafi vera hissa á að menn hefðu kallað sig á fundinn langan veg til að ræða þetta, en ekki önnur þarfari eins og ágrip eða fósturvísaflutninga. Hann sagðist undrast að knapar tækju ekki vel í þessa breytingu enda hefðu hross oft áður verið sýnd á hringvelli á yfirlitssýningum t.d. í Skagafirði, Eyjafirði og víðar. Spurði hann sig hvort þetta væri af því að afturför hefði orðið í tamningu frá því sem áður var. Hann sagðist undrast að erfiðara væri að ríða hestum í dag en fyrr á árum og hvort nauðsynlegt væri að nota einjárnung til að stýra þessum vandriðnu hrossum.  Hann skýrði sum atriði varðandi mögulega framkvæmd, eins og að knapar gætu beðið á skammhliðum meðan aðrir knapar sýndu t.d. fet á langhlið til að trufla ekki. Einnig kom það fram að riðið yrði upp á vinstri hönd á hringnum og að loknum þremur hringjum væri ein ferð í hvora átt á beinni braut. Gangtegundir og hraði væri frjáls, dómur opinn og dómararnir fjórir líkt og tíðkast hefur á LM. Í dómnum væri vegalengdin stytt úr 3,0 km í 2,4 km og reiðin á yfirliti úr 1,8 km í 1,5 km. En þegar hann var spurður um hve mikinn tíma þetta fyrirkomulag mundi spara þá sagði hann það ekki vera ljóst. Vakti þetta undrun fundarmanna því að eitt af meginmarkmiðum breytingarinnar er að spara tíma.

Bjarni Þorkelsson steig pontu og mælti sem fulltrúi í fagráði. Sagði hann að langur aðdragandi hafi verið að þessari ákvörðun og hann væri meðábyrgur í þessari ákvörðum sem nefndarmaður í fagráði. Bjarni spurði jafnframt hvar andstæðingar tillögunar hefðu verið meðan hún var á ákvörðunarstigi.  Bjarni er sannfærður um að þessi kynning á hrossunum sé áhorfendavæn en því miður hafa yfirlitssýningarnar verið að færast í öfuga átt, sérstaklega þar sem knapar sýna ekki það sem hrossin geta best, og því þurfi að breyta. Bjarni sagðist einnig hafa lagt til í fagráði sérstakan LM dóm sem væri byggður á dómi á vorsýningu með opnum dómi til hækkunar eða lækkunar. Sagði hann jafnframt að réttast væri að þróa þessi mál eins og önnur áfram og ljóst væri að þetta fyrirkomulag væri ekki endilega framtíðarlausn.

Bergi Jónssyni sagðist ekki hugnast þetta fyrirkomulag, en hefði talað fyrir dómi kynbótahrossa á hringvelli en ekki yfirliti. Hann taldi hættu á að besta hrossið í hollinu tæki mögulega athyglina frá lakari hrossum. Sagði hann sig ekki kvíða því að ríða á hringvelli, en setti spurningarmerki við hvernig hægt væri að dæma þetta. Hann taldi þetta ganga gegn stöðlun kynbótadóma og ætti ekki að gera þessa tilraun á stórum mótum eins og LM.

Guðmundur Gíslason benti á að þetta mál hafi verið rætt talsvert í kynbótanefnd á LH þingi 2010 og hafi Guðlaugur tekið þátt í því starfi. Þar hafi niðurstaðan verið að færa ekki kynbótasýningar á hringvöll. Lýsti hann einnig áhyggjum sínum yfir því að þetta gæti orðið eins og úrslit í hringvallagreinum þar sem kappið er oft full mikið.

Anton Páll sagðist vera opinn fyrir breytingum, en að menn séu oftast á móti þeim í fyrstu. Hann taldi fækkun ferðum í dómi úr 10 í 8 vera til góðs. Hann hefði riðið yfirlit á hring norður í Eyjafirði þar sem það form mæltist vel fyrir, en benti jafnframt á að prófa þyrfti þetta áður en það væri framkvæmt á LM og jafnvel væri rétt að hafa þetta við lýði á öllum vorsýningunum. Hann endaði á að segja að í þessum líkt og öðru myndu bestu hrossin klára sig best.

Ólafur Hafsteinn teldi lítið upp á að hlaupa í dómnum ef ferðum yrði fækkað enda væru skylduatriðin hjá alhliðahrossum alls sjö. Oft þurfi að sýna sama atriðið oftar en einu sinni til að sannfæra dómara og að rými væri oft hærra metið en fegurð. Hann setti einnig spurningu við tímasparnaðinn. Hann spurði einnig hvort endanlega væri búið að ákveða þetta eða hvort að menn væru komnir til að hlusta á hvað menn í greininni hefðu um málið að segja.

Sveinn Steinarsson lagði fram tillögu fyrir hönd stjórnar Hrossaræktarsamtaka Suðurlands til samþykktar og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Tillagan gekk út á að fækka ferðum á yfirlitssýningu úr sex í fjórar en halda áfram að sýnabeinni braut.

Ljóst er að best væri að nota þann kraft sem á fundinum var í að komast sameiginlega að niðurstöðu um hvernig best væri að gera kynbótasýningar þannig úr garði að fagleg vinnubrögð væru í fyrirrúmi en allt væri gert til að þær gengu hratt og vel undir styrkri verstjórn. Margar góðar hugmyndir komu fram á fundinum og réttast væri að kalla saman hóp sýnenda, ræktanda og fagaðila til að þróa kynbótasýningaformið áfram. Betra flæði upplýsinga til áhorfenda, upplestur hækkana á yfirliti og nýting nýjustu tækni eins og t.d. nútímasímar og spjaldtölvur bjóða upp á, ásamt bættu flæði á sýningunni sjálfri getur svo gert kynbótasýningar enn áhorfendavænni. Gerð var tilraun á Sörlastöðum fyrir nokkrum árum að vera með risaskjá á kynbótasýningu sem veitti upplýsingum fljótt og vel til áhorfenda. Sú nýjung lagðist vel í fólk og væri vert að skoða það fyrir LM2012.