þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Forseti styrkir stöðu sína

Jens Einarsson
9. september 2009 kl. 13:06

Ný afkvæmi koma til dóms

Forseti frá Vorsabæ hefur styrkt stöðu sína sem kynbótahestur. Allmörg ný afkvæmi undan honum hafa komið til dóms á árinu og nokkur fengið góðar einkunnir. Hann á 221 afkvæmi skráð í WorldFeng og þar af hafa tuttugu og fjögur mætt til dóms, sem að vísu er ekki mikill fjöldi hjá 13 vetra stóðhesti. Fjórtán eru með fyrstu verðlaun. Hæst dæmda afkvæmið er Hilda frá Bjarnarhöfn með 8,54 í aðaleinkunn.

Forseti fékk sjálfur mjög góðar einkunnir þegar hann var sýndur í einstaklingsdómi og miklar vonir bundnar við hestinn. Hann er hæst dæmda afkvæmi hins mikla stóðhests, Hrafns frá Holtsmúla, með 8,58 í aðaleinkunn. Móðir hans er Litla-Jörp frá Vorsabæ, dóttir Þrastar frá Teigi í Fljótshlíð. Afkvæmin létu þó á sér standa lengi vel og ræktendur voru misánægðir með útkomuna. Þó misjafnt eftir landshlutum. Svo virðist sem Forseti sé einn þeirra stóðhesta sem kemur misvel út eftir notkunarstöðum. Það er ánægjuefni að þessi fagri og gangrúmi gæðingur sé nú að skila sér í ræktuninni.