laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Folöld veikjast í stóðhestagirðingum

Jens Einarsson
11. ágúst 2010 kl. 14:33

Eitt dauðsfall verið staðfest

Talsvert hefur borið á því í sumar að folöld veikist all hastarlega af hrossapestinni í stóðhestagirðingum. Svo virðist sem aukið smitálag skapist þar sem margar hryssur eru í hólfum. Talið er að staðbundin brynning, það er að segja hólf sem ekki eru með rennandi vatni eða læk í gegn, auki smitálag. Eitt dauðsfall hjá folaldi vegna smits af völdum Streptococcus zooepidemicus hefur verið staðfest á Keldum. Nokkur tilfelli til viðbótar eru talin líkleg. Svohljóðandi tilkynning hefur borist frá dýralækni hrossasjúkdóma:

Hósti í folöldum krefst aukins eftirlits

Eigendur og umsjónarmenn eru hvattir til að fylgjast vel með folöldum. Ástæða er til að ætla að þau geti í einhverjum tilfellum fengið lungnabólgu upp úr smitandi hósta og jafnvel drepist í kjölfarið ef meðhöndlun hefst ekki í tæka tíð. Sérstaklega á þetta við um folöld sem koma úr stóðhestagirðingum þar sem smitálag er oft mikið.

Ef vart verður við mikinn hósta eða óeðlileg öndunarhljóð (korr) í folöldunum er nauðsynlegt að kalla til dýralækni sem metur hvort hefja beri meðhöndlun. Stóðhestshaldarar eru og minntir á ábyrgð sína í þessu sambandi.

Fyrir hönd Matvælastofnunar,

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma.