mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fleiri graðhestar en hryssur á LM2011

8. júní 2011 kl. 10:17

Stóðhesturinn Nökkvi frá Hólmi var einn af þeim stóru upp úr miðri tuttugustu öldinni.

30 stóðhestar í elsta flokki

Eftir daginn í gær voru 200 kynbótahross komin með einkunn inn á Landsmót 2011. Skiptingin er athyglisverð, 101 stóðhestur og 99 hryssur. Semsagt fleiri stóðhestar en hryssur eins og staðan er núna! Tveir sýningadagar eru eftir og hlutföllin gætu breyst lítillega. Æskilegra hlutfall væri 80% hryssur og 20% stóðhestar, út frá ræktunarlegu sjónarmiði. Strúktúrinn í kynbótastarfinu er að breytast og rannsóknarefni út af fyrir sig.

Fimm vetra flokkur hryssna er stærstur, eins og oft áður, telur í dag 48 hryssur. Sem er jákvætt. Það þýðir væntanlega að hryssur eru sýndar ungar og fara síðan í ræktun. Sex vetra flokkur telur 31 hryssu, sjö vetra 11 hryssur. Fjögra vetra hryssur eru ennþá fáar, aðeins níu hafa náð lágmörkum.

Flokkur 7 vetra stóðhesta er stærstur, telur 30 hesta eins og staðan er nú. Æskilegra væri að þessir hestar væru uppteknir í hryssum, út frá ræktunarlegu sjónarmiði. Það er að segja ef þeir voru ótvíræðir gæðingar minna tamdir! Sex vetra hestar eru 27 og 5 vetra hestar 25. Fjögra vetra flokkur stóðhesta er minnstur, telur 19 hesta.

Það er ljóst að stóðhestar í landinu eru orðnir mun fleiri en þörf er fyrir. Það hefur bæði kosti og galla. Fólk hefur verið hvatt til að halda hestum undan góðum hryssum ógeltum. Sem þýðir stærri hópur að velja úr. Reyndin er sú að fæstir hljóta vegsemd sem stóðhestar og fólk lendir í vandræðum með hesta sem fáir eða engir vilja nota.

Þá eru tveir kostir í stöðunni: Gelda hestinn og sitja uppi með gelding, sem hugsanlega hagar sér eins og stóðhestur það sem eftir er ævinnar. Óalandi og óferjandi. Eða selja hestinn ógeltan, sem er sá kostur sem flestir velja. Þá er vænlegast að koma honum á framfæri í sýningum og keppni og Landsmót er þar eftirsóknarverðasti kosturinn. Eins og sjá má á sýningarskrá fyrir LM2011. En þar komast mun færri að en vilja —  og reyna!