sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fleiri góðir gestir á Stóðhestaveislu

5. apríl 2017 kl. 18:55

Roði frá Lyngholti, knapi Árni Björn.

Enn bætist í gæðingahópinn sem mun mæta til Stóðhestaveislu í Samskipahöllinni nk. laugardagskvöld og því kominn tími til að kynna nokkra þeirra til leiks.

Ræktunarbúið á Strandarhöfði mun eiga sína ferfættu fulltrúa á veislunni, en þaðan munu m.a. annars koma tveir bráðflinkir klárhestar, þeir Dökkvi og Frægur frá Strandarhöfði. Gæðingurinn Sæþór frá Stafholti ætlar einnig að taka nokkur létt spor, en þessi brúnskjótti Hákonssonur er nú kominn með Snorra Dal í hnakkinn og verður gaman að sjá þetta par.

Knapi ársins, Árni Björn Pálsson, mun að sjálfsögðu mæta til leiks með nokkra stólpagæðinga úr sínu hesthúsi. Má þar nefna Ómssoninn magnaða Roða frá Lyngholti, sem hefur heillað fólk með sínu mikla fasi og framgöngu. Þá mun hinn kraftmikli Gaumssonur, Flaumur frá Sólvangi, dansa um gólfið fyrir veislugesti. Einnig mun Árni Björn mæta með ungan og mjög spennandi hest, Boða frá Breiðholti, en sá sýndi glæst tilþrif í kynbótabrautinnni í fyrra, þá aðeins fjögurra vetra gamall. Verulega spennandi Krákssonur þar á ferð!

Miðasala er í fullum gangi verslunum Líflands í Reykjavík, Borgarnesi og Hvolsvelli, hjá Baldvin og Þorvaldi á Selfossi og í Hestar og menn. Sjáumst á veislunni!