miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fláki fer til Þýskalands

2. júlí 2012 kl. 16:06

Fláki fer til Þýskalands

Hestagullið Fláki frá Blesastöðum 1A mun halda til Þýskalands í haust. Það staðfesti Þórður Þorgeirsson, knapi hans og einn af eigendum gæðingsins, við blaðamann Eiðfaxa í gær.

Fláki var óneitanlega ein af stórstjörnum landsmótsins. Þeir Þórður voru ávallt skörungslegir á keppnisvellinum og vöktu mikla athygli, enda er Fláki stórglæsilegur stóðhestur, tinnusvartur með hvítar stjörnur. Þeir leiddu A-flokk gæðinga framan af og þóttu ansi sigurstranglegir og luku að lokum keppni í 2. sæti flokksins með 8,88 í lokaeinkunn.

Fláki er undan Gígjari frá Auðsholtshjáleigu og Kjarvalsdótturinni Blúndu frá Kílhrauni, Kjarvalsdóttur sem hefur gefið af sér margan gæðinginn, m.a. töltmeistarann Ölfu. Fláki er mikill kostagæðingur sem hlaut 8,49 í aðaleinkunn fyrir kynbótadómi á Landsmóti 2011 og var þá í þriðja sæti í flokki 6 vetra stóðhesta. Hlaut hann 8,71 fyrir kosti m.a. einkunnina 9,5 fyrir vilja og geðslag og 9 fyrir tölt.
Hefur því jafnvel verið varpað fram að gæðingurinn yrði tilvalinn fulltrúi Íslands í fimmgangskeppni heimsmeistaramótsins í Berlín á næsta ári.

Fláki mun sinna hryssum þar til hann fer ytra.