mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjörutíu og tvö hross sýnd frá Feti

Jens Einarsson
24. september 2009 kl. 10:20

Fimmtíu og fjögur hrossaræktarbú til skoðunar

Það ríkir jafnan mikil spenna og eftirvænting um hvaða hrossaræktarbú hlýtur titilinn Hrossaræktarmaður ársins á Uppskeruhátíð hestamanna. Guðlaugar Antonsson hefur tekið saman lista yfir hvorki fleiri né færri en 54 bú, sem hann hefur sent fulltrúum í fagráði í hrossarækt til skoðunar.

Guðlaugur segir að mikil gróska sé í hrossaræktinni og ný bú séu að koma sterk inn. Hann segist ekki geta sagt á þessari stundu hve mörg bú verða tilnefnd af þessum fimmtíu og fjórum. En það hafi verið samþykkt í fagráði á síðasta ári að fjölga tilnefndum búum frá því sem verið hefur. Meðal annars í ljósi þess hve mörg bú sýna góðan árangur.

Mjög misjafnt er á hvaða forsendum búin eru forvalin. Til viðmiðunar eru nokkur atriði: Földi sýndra hrossa (hér heima og erlendis frá sama ræktanda), prósenta sýndra hrossa yfir 8,0 í aðaleinkunn, og meðalaldur, svo einhver séu nefnd. Guðlaugur segri að öll búin á listanum skarti í það minnsta tveimur hrossum með yfir 8,0 í aðaleinkunn.

Þetta sé mjög breytilegt milli búa. Sem dæmi þá sé eitt bú með 18 hross og meðalaldur 4,9 ár, og annað með fimm sýnd hross og meðalaldur 7,9 ár. Og allt þar á milli. Einnig séu á listanum bú með öll sýnd hross með 8,0 og hærra í aðaleinkunn. Eitt bú er með 21 hross með 8,0 eða hærra í aðaleinkunn, ásamt fleiri sýndum hrossum með lægri aðaleinkunn.

Það bú sem er ræktandi flestra sýndra hrossa á árinu er Fet á Rangárvöllum. Frá Feti voru sýnd fjörutíu og tvö hross, hér heima og erlendis. Allmörg hross voru að koma í endurdóm og í eigu annarra en Fets, eins og gefur að skilja. Þetta er líklega mesti fjöldi hrossa frá einu búi, sem sýndur hefur verið í kynbótadómi á ári. Ræktandi hrossanna er í flestum tilfellum Brynjar Vilmundarson, fyrrum hrossabóndi á Feti. Eigandi Fets í dag er Karl Wernersson.