sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjórar tíur lágu í kynbótadómum

1. júlí 2011 kl. 17:27

Spuni frá Vesturkoti, knapi Þórður Þorgeirsson.

Íslendingar endurheimta krónprinsinn

Yfirlitssýningar kynbótahrossa á LM2011 á Vindheimamelum hafa sannarlega verið viðburðaríkar. Fjórar tíur lágu. Tvær fyrir skeið, ein fyrir tölt og ein fyrir vilja og geðslag.

Stóðhefsturinn Spuni frá Vesturkoti hirti tvær tíur af þessum fjórum, aðra fyrir skeið og hina fyrir vilja og geðslag. Var það samdóma álit flestra að hann eigi þær báðar fyllilega skilið og jafnvel ellefu fyrir viljann og lundarfarið. Spuni stendur langefstur í flokki fimm vetra stóðhesta og er hæst dæma kynbótahross í einstaklingsdómi á mótinu með 8,92 í aðaleinkunn. Fyrir kosti er hann með 9,25.

Hann er einnig hæst dæmdi íslenski stóðhestur í heimi og hefur þar með fært íslenskum hrossaræktendum stolt sitt aftur, sem særðist smávegis þegar hinn sænsk-íslenski Prins frá Knutshyttan gerðist krónprins íslenksra stóðhesta þegar hann skaust á toppinn á kynbótasýningu í Svíþjóð fyrir skömmu.

Þóra frá Prestsbæ hlaut tíu fyrir skeið á yfirlitssýningu í gær og Díva frá Álfhólum hlaut tíu fyrir tölt í fordómi. Fleiri hross voru nærri því að fá tíu í einkunn fyrir einstaka þætti í hæfileikadómi. Ekki var gott fyrir leikmenn, og jafnvel þá sem til sérfræðinga geta talist, að sjá mun á allnokkrum skeiðsprettum sem fengu 9,5 í einkunn og þeim sem fengu 10,0. Slík er vekurðin orðin í mörgum hrossum hér á LM2011 á Vindheimamelum. Var það margra mat að vel hefði mátt rökstyðja fleiri tíur en þær fjórar sem gefnar voru.