mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölsótt afmælishátíð FT

21. febrúar 2011 kl. 11:43

Benedikt Línddal minnti hestamenn á nauðsyn og gildi þess að kenna hestum að teymast.

Á áttunda hundrað áhorfendur

Á milli 700 og 800 manns sóttu afmælishátíð FT í Reiðhöllinni í Víðidal. Flestir voru komnir stundvíslega klukkan tíu um morguninn og sátu eins og negldir fram að kvöldmat. Þrátt fyrir að gagnrýna megi sýninguna fyrir að vera of langdregna og sýningaratriðin of keimlík.

Meginþema hátíðarinnar og kennslusýninganna sem boðið var upp á var virðing fyrir hestinum og að reiðmenn tileinkuðu sér sanngjarnar og léttar ábendingar. Eitthvað sem er ekki alltaf í heiðri haft hjá mörgum FT félögum og fleiri knöpum þegar í raunverulega keppni er komið. En góður ásetningur gefur góðar vonir og ef draga má ályktanir af fjölda áhorfenda og hve þausætnir þeir voru, þá fellur þemað í kramið.

Þótt sýningaratriðin væru mörg keimlík voru nokkur sem skáru sig úr, einkum fyrir framsetningu. Atriði Eyjólfs Ísólfssonar og Antons Níelssonar var skýrt og vel fram sett. Hesturinn sem Anton reið, Vilmundur frá Feti, var ekki valinn fyrir tilviljun, eins og flestir viðstaddir áttuðu sig á. Vilmundur er eitt af fórnarlömbum kynbótasýninganna og var orðinn mjög harður og ósáttur á LM2006. Hann fór nú um salinn léttleikandi og sáttur á hringamélum - án reiðmúls.

Teymingaatriði Benedikts Líndals var sérlega skemmtilegt og full þörf á að ítreka nauðsyn og gildi þess að kenna hestum að teymast, bæði með manni og á hesti. Atriði sem trassað er að kenna á allt of mörgum tamningastöðvum. Aðferð Benedikst tekur fram öllu öðru sem þekkt er í teymingum á hestum hér á landi og víðar.

Mette Mannseth var með atriði sem hún kallaði "Hugarfar" og undirstrikaði það með sýnikennslu í hringteymingu. Atriðið var vel fram sett og skýrt og Mette náði að undirstrika hve jákvæð styrking er í raun einföld og árangursrík, ef menn á annað borð gefa henni gaum. Rétt er líka að nefna kennslusýningu Þórdísar Erlu Gunnarsdóttur, sem er í yngstu kynslóð tamningamanna og reiðkennara. Hún flutti erindi sitt á einföldu og glaðlegu mannamáli og náði eyrum "nemendanna". Efnilegur knapi og reiðkennari sem á framtíðina fyrir sér. Fleiri mætti nefna en látum hér staðar numið.