sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölmennur fundur í Þingborg

15. september 2010 kl. 01:52

Fjölmennur fundur í Þingborg

Fundir sem samtök hestamennskunnar, LH, FHB og FT boðuðu til um smitandi hósta í hrossum voru vel sóttir. Eiðfaxi var á seinni fundi dagsins....

sem haldinn var í Þingborg, fyrir austan Selfoss.
Dýralæknarnir og vísindafólkið Sigríður Björnsdóttir, Vilhjálmur Svansson og Eggert Gunnarsson fluttu fyrirlestra, Sigríður um faraldsfræði, Vilhjálmur um veirufræði og Eggert um bakteríufræði. Allir fyrirlestrarnir fjölluðu að sjálfsögðu um sýkinguna í hrossum hér á landi og rannsóknir á henni.
Fyrirlestrarnir voru allir vel unnir og greinilegt að mikið starf hefur verið unnið en sannað þykir að frumorsök sýkingarinnar sé baktería en ekki vírus. Enn er unnið að rannsóknum en lögð var áhersla á það að fólk fylgdist vel með hrossum sýnum nú er veður fer kólnandi og reyndi eftir fremsta megni að aðskilja hóstandi hross frá heilbrigðum til þess að minnka smitálagið eins mikið og nokkur kostur er. Ennfremur er fólk hvatt til þess að gæta fyllsta hreinlætis og sótthreinsa hesthúsin áður en tekið verður á hús í vetur.
Áríðandi er að huga vel að öllum aðbúnaði og fóðri hrossa sem eru úti og gæta þess að verja þau  gegn ormasmiti. Bakterían er næm fyrir fúkkalyfjum og er fólk hvatt til að meðhöndla þau hross sem verða mikið veik.
Umræður urðu allmiklar í kjölfar fyrirlestranna en var það mál manna eftir fundinn að vísindafólkið okkar er greinilega að vinna mikið og leggur nótt við dag að færast enn nær lausn ef einhver er.
Eins og fram hefur komið hér á vefnum er útflutningur aftur hafinn eftir nokkurt hlé af þessum sökum og kom fram á fundinum að horfur í þeim efnum væru góðar.