miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölmennur fundur í Reiðhöllinni

20. maí 2010 kl. 23:30

Fjölmennur fundur í Reiðhöllinni

Í kvöld fimmtudagskvöldið 20. maí var haldinn opinn fræðslufundur í Reiðhöllinni í Víðidal um hóstapestina sem nú geisar meðal hrossa hér á landi. Fundurinn hófst í veitingasal reiðhallarinnar uppi á annarri hæð, en fljótlega eftir að hann hófst varð að flytja hann niður í reiðsalinn vegna mikillar aðsóknar.

Svo fjölmennur var þessi fundur að lá við að húsfyllir væri þrátt fyrir þessa ráðstöfun. Það eyðilagði mikið þennan fund hve illa heyrðist í ræðumönnum sem voru dýralæknarnir  Sigríður Björnsdóttir og Vilhjálmur Svansson.

Lítið kom fram á þessum fundi sem ekki hefur þegar komið fram í fréttum fjölmiðla. Sigríður Björnsdóttir fór yfir atburðarásina eins og hún hefur verið, rifjaði upp upphaf rannsókna á veikinni og þróun. Búið er að senda eitthvað af sýnum til erlendra rannsóknastofa en ekki hefur tekist að greina vírusinn sem veldur þessari pest sem einhvern þekktan vírus.

Einkenni veikinnar virðast vera mjög einstaklingsbundin og geta þau varað mislengi eða frá 2-6+ vikur. Er fólki ráðlagt að gæta hreinlætis og passa uppá að loftræsta hesthúsin vel en best er að hafa hrossin mikið úti. Þó verður að taka tillit til veðurs ef hross eru farin úr hárum. Fara skal varlega af stað með þjálfun er einkenni veikinnar eru horfin og reyndar verði fólk að prufa sig áfram hvað það varðar.

Vilhjálmur Svansson flutti örugglega mjög fróðlegt erindi um sögu smitsjúkdóma í hrossum hér á landi, en fór erindið dálítið fyrir ofan garð og neðan vegna þess hve illa heirðist til hans.

Fréttir verða fluttar hér á eiðfaxa.is af þróun rannsókna er þær berast.