mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölbreytni og fagmennska í námskeiðahaldi

14. desember 2011 kl. 13:16

Fjölbreytni og fagmennska í námskeiðahaldi

Vetrarstarf hestamannafélaganna er að fara af stað og framundan virðist viðburðaríkur vetur í félagsstarfi hestamanna. Framboð af fræðslu og námskeiðum af ýmsu tagi hefur sjaldan verið meiri eða fjölbreyttari og metnaður hestamannafélaganna virðist líka vera að aukast. Í haust réði hestamannafélagið Hörður Oddrúnu Ýr Sigurðardóttur sem yfirkennara hjá æskulýðsdeild félagins. Með ráðningu yfirreiðkennara vildi stjórn Harðar ná fram enn frekari fagmennsku í æskulýðsstarf félagsins. Eiðfaxi spjallaði við Oddrúnu um komandi vetur, fagmennsku í fræðslustörfum, umræðu um knapamerkjakerfi og mögulega reiðkennararáðstefnu.

Alltaf má gott bæta
 
„Eftirspurn eftir fræðslu og reiðnámskeiðum hefur aukist. Margir fara jafnvel fyrst að sækja fræðslu af einhverju tagi af forvitnissökum og sjá svo að þetta er gagnlegt, að læra að að eiga eins góð samskipti við hestinn og hægt er. Ég er mjög ánægð með þessa þróun í fræðslu og námskeiðahaldi, því maður hættir aldrei að læra,“ segir hinn nýráðni yfirkennari, Oddrún Ýr. Hún útskrifaðist með tamningapróf af búfræðideild Hóla árið  1997 og lauk þjálfara- og reiðkennararéttindum C árið 2003. Síðan þá hefur Oddrún unnið fjölbreytt og ötul félagsstörf, starfar m.a. hjá Landssambandi hestamannafélaga og Landsmóti ehf. er í stjórn og fræðslunefnd gæðingadómarafélagsins og dæmir bæði á íþrótta- og gæðingamótum.
 
Þó Oddrún sé ánægð með aukningu fræðsluviðburða fyrir hestamenn finnst henni þó vanta upp á endurmenntun fyrir reiðkennara. „Auðvitað er margt gott gert hér á landi varðandi fræðslustörf og menntun innan hestamennskunnar en alltaf má gott bæta. Mér finnst kannski vanta betri endurmenntun hjá okkur kennurunum, aðhald til að eiga í minni hættu á að staðna í okkar fagi.  Um nokkra hríð hefur reiðkennurum staðið til boða að fylgjast með sýnikennslu sem tekur kvöldstund eða svo. Þær eru flestar mjög góðar og gildar en það sem ég er að tala um er eitthvað meira, þar sem reynslumiklir leiðbeinendur væru við kennslu, kennarar gætu borið saman bækur sínar, frætt og leiðbeint hvor öðrum. Einhvers konar reiðkennararáðstefna gæti jafnvel verið svarið,“ stingur Oddrún upp á og bendir á góð áhrif sem vettvangur á borð við ráðstefnu um dómaramál hafði. „Enginn er yfir gagnrýni hafinn, hvort sem það er dómari, hestur eða knapi. Það er þó nauðsynlegt að hafa alla gangrýnisumræðu á mjög málefnalegum grunni. Mér finnst pínu hættulegt þegar gerðar eru skotgrafir og ákveðnir dómarar, hestar eða knapar verða fyrir barðinu þeim sem úr gröfunum skjóta. Það finnst mér hvorki málefnalegt  né faglegt.“
 
Góð reynsla af knapamerkjakerfinu
 
Oddrún hefur á undanförnum árum unnið mikið með knapamerkjakerfið, bæði kennt þau og dæmt próf. Það var því ekki úr vegi að spyrja Oddrúnu álits á gagnrýnni umræðu um kerfið að undanförnu. „Mín reynsla af knapamerkjunum er góð.  Knapamerkin eru eina stigskipta námið í reiðmennsku sem við eigum í dag fyrir einstaklinga 12 ára og eldri og mikil aðsókn hefur verið í þau. Flestir sem ég þekki hafa haft gagn og gaman af því að fara í gegnum þessi námskeið, þetta er jú val hvort þú ferð á þessi námskeið eða ekki.  Reyndar finnst mér stundum vanta upp á fjölbreytileika í námskeiðahaldi hjá hestamannafélögunum, þ.e. að ekki sé einungis boðið uppá knapamerkjakennslu. En mér sýnist það vera að breytast sem er gott,“ segir Oddrún sem sér fram á viðburðarríkt ár sem yfirreiðkennari hjá Herði.
 
Hún mun því í vetur sjá um ráðningu kennara, hafa umsjón með allri kennslu á vegum æskulýðsnefndar Harðar, standa fyrir fyrirlestrum ásamt ráðgjöf við nemendur og kennara nefndarinnar. „Ég legg mikið upp úr því að námskeiðin sem verða í boði hjá okkur séu fjölbreytileg svo að flestir ef ekki allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Fagmennska í starfi er eitthvað sem mér finnst mjög mikilvægt og legg ég mikið upp úr henni, bæði hjá sjálfri mér og þeim kennurum sem verða starfandi hjá okkur í vetur.  Þeir kennarar sem koma að kennslu hjá Herði í vetur eru Súsanna Ólafsdóttir, Reynir Örn Pálmason, Line Norrgard, Ragnheiður Þorvaldsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir.  Búið að er að skipuleggja fyrri hluta námskeiða hjá æskulýðsdeild Harðar og munu námsáætlanir  fyrir þau námskeið verða kynnt á heimasíðu Harðar í næstu viku. Skráning á námskeiðin verður svo í fyrstu viku janúar 2012.“