þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjölbreytileiki íslenska hestsins er eftirsóknarverður

17. september 2019 kl. 09:01

Viðtal sem birtist í síðasta tölublaði Eiðfaxa við þrefaldan heimsmeistara, Franzisku Müser

 

 

Franziska Müser var áberandi á heimsmeistaramótinu í Berlín þar sem hún keppti fyrir hönd síns heimalands sem er Þýskaland. Hún gerði sér lítið fyrir og varð þrefaldur heimsmeistari ungmenna. Eiðfaxi tók þessa efnilegu hestakonu tali að mótinu loknu

 

Allir í fjölskyldunni taka þátt

Franziska Müser var áberandi á síðastliðnu heimsmeistaramóti en hún er 20 ára gömul og býr í Ratingen sem er rúmlega nítíu þúsund manna borg í Þýskalandi, nálægt Düsseldorf. Franziska keppti fyrir hönd Þýskaland á Speli. Spölur er frá Njarðvík og muna margir íslendingar eftir honum í keppni, þá setinn af Ásmundi Erni Snorrasyni sem keppti m.a. á honum fyrir hönd Íslands á HM 2017 í Hollandi. Franziska og Spölur gerðu sér lítið fyrir og urðu þrefaldir heimsmeistarar í tölti, fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum ungmenna. Eiðfaxa lék forvitni á að vita meira um þennan sigursæla knapa og hafði því samband við hana að heimsmeistaramótinu loknu. Það fyrsta sem blaðamanni lék forvitni á að vita er hvort fleiri í fjölskyldu hennar stunduðu hestamennsku „Mamma átti íslenska hesta þegar hún var barn og hefur því alla tíð verið með hestabakteríuna. Hún kynnti mig því fyrir íslenska hestinum og setti mig fyrst á hestbak þegar ég var fjögurra ára gömul. Hún og pabbi minn standa þétt við bakið á mér í dag í en hann hafði ekki átt hesta fyrr en hann kynntist mömmu og er meira fyrir það að fara með Spöl í göngutúr í skóginum og hjálpa okkur við öll störf sem til falla í hesthúsinu. Þá er systir mín, Anna, einnig keppnisknapi á íslenskum hestum en hún á hest sem heitir Óskar sem hún hefur náð góðum árangri á í barnaflokki. Á næsta ári stendur til að Anna hefji keppnisferil á hryssunni sinni Spá frá Kvistum, sem hlaut háan hæfileikadóm á kynbótasýningu í Herning í sumar“. Spá þessi er undan Spuna frá Kvistum og Frigg frá Heiði ræktuð af Kvistum ehf en í eigu Önnu Mariu Müser. Spá hlaut háan kynbótadóm 8,85 fyrir hæfileika þar af 9,5 fyrir tölt, 8,43 fyrir sköpulag og í aðaleinkunn 8,68. Þær systur eru því ekki á flæðiskeri staddar með keppnishross.

Íslenski hesturinn hentar í margt

En hvað er það við hestamennskuna sem heldur Franzisku í henni og þá sérstaklega af hverju íslenski hesturinn. „Eins og ég sagði frá hér áðan að þá hef ég allt mitt líf verið í kringum hesta og kann best við mig í hesthúsinu hvort sem það er við þjálfun hestanna eða að hirða um þá. Það eru margar ástæður fyrir því að ég kann best við íslenska hestinn og ein sú helsta er það hversu fjölbreytilegur hann er. Ekki nóg með það að einn hestur geti keppt í nokkrum keppnisgreinum að þá eru þeir jafnvel á sama tíma frábærir reið- og fjölskylduhestar. Allt þetta er vegna þess hversu skapgóðir og traustir þeir eru og henta fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Að sjálfsögðu er svo mikilvæt atriði að hafa kynnst gangtegundunum tölti og skeiði“.

Sterkir stofnar

Keppnishestur Franzisku er eins og áður segir Spölur frá Njarðvík. Spölur er fæddur árið 2006 og er því þrettán vetra gamall, en hann er undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum og Sælu frá Sigríðarstöðum. Rökkva þekkja flestir hestamenn en hann er undan Otri frá Sauðárkróki og Sneglu frá Hala sem er undan Þokka frá Garði. Sæla, móðir Spalar, er hins vegar undan Sörla frá Sauðárkróki og Spólu frá Sigríðarstöðum. Það standa því sterkir stofnar að Speli sem er stóðhestur sýndur með fyrstu verðlaun í kynbótadómi. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,23 þar af 9,0 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Fyrir sköpulag 7,87 og í aðaleinkunn 8,09. Sýnandi á honum var Ásmundur Ernir Snorrason sem keppti á honum við góðan orðstír hér heima á Íslandi bæði í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Ásmundur fór svo með Spöl út á heimsmeistaramótið í Hollandi 2017 þar sem hann náði góðum árangri og voru þeir í úrslitum bæði í fjórgangi og tölti. Ræktandi Spalar eru þau Brynjar Guðmundsson og Ásdís Adolfsdóttir. En hvenær tók Franziska við þjálfun á honum. „Ég byrjaði að þjálfa Spöl í ágúst á síðasta ári þegar hann komst í eigu okkar fjölskyldunnar. Fyrir mér er hann ekki eingöngu keppnishestur, heldur hinn fullkomni fjölskylduhestur sem ég nýt þess að ríða. Ástæða þess er sú hversu góðu geðslagi hann býr yfir og nýtist það bæði í keppni og reiðtúrum með öðrum hestum.

Tilfinningin ótrúleg

Franziska hafði áður keppt fyrir Þýska landsliðið en það var á mið-evrópumótinu árið 2016 og 2018 þá á Óskari frá Akureyri. Þetta var því hennar fyrsta heimsmeistaramót sem knapa og var árangurinn stórkostlegur. Sigur í tölti ungmenna með 7,94 í einkunn, sigur í fjórgangi ungmenna með 7,30 í einkunn og samanlagðan sigur í fjórgangsgreinum. En hvernig er tilfinningin nú þegar örlítið er liðið frá mótinu. „Tilfinningin er ótrúleg og erfitt að lýsa henni í orðum. Ég bjóst alls ekki við því fyrir mótið að við Spölur ættum eftir að standa uppi sem heimsmeistarar í þremur greinum, eftir að hafa einungis verið saman í tæplæga ár. En ég fann það þó þegar ég var kominn á mótssvæðið hversu einbeittur Spölur var og þá fann ég að mér voru allir vegir færir. Til þess að vera fullkomlega hreinskilinn að þá var ég búinn að gera mér vonir um að verða í efstur þremur sætum í tölti en gerði mér litlar væntingar með fjórgang og samanlagðan sigur.“ Það er ljóst að Franziska á keppnisrétt á næsta heimsmeistaramóti, sem fram fer í Herning í Danmörku árið 2021. En er hún nú þegar farinn að leiða hugann að því móti. „Ég verð að viðurkenna að ég er ekki farin að hugsa til mótsins í Danmörku eftir tvö ár. Spölur fær verðskuldað hlé frá þjálfun núna og fer út í hólf með nokkrum hryssum. Síðan hefst eðlileg vetrarþjálfun í haust og við sjáum hvert næsta keppnistímabil leiðir okkur.“ Eiðfaxi óskar þessari efnilegu hestakonu til hamingju með frábæran árangur á nýafstöðnu heimsmeistaramóti og hlakkar til að sjá meira af henni í komandi framtíð.