þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjögurra vetra stjörnurnar frá í fyrra, hvar eru þær núna ? -

23. júlí 2010 kl. 16:18

Fjögurra vetra stjörnurnar frá í fyrra, hvar eru þær núna ? -

Það er  misjafnt hvar metnaður ræktenda liggur þegar kemur að því að ákveða hvað skal gert við ungu hryssurnar sem fá góðan dóm. Sumir hugsa um það eitt að koma þeim sem fyrst í ræktun eftir að dómi hefur verið náð sem ræktandinn telur viðunandi að fylgi hrossinu, þeir líta kannski fyrst og fremst á hryssurnar sem ræktunargrip og gildi þeirra liggi fyrst og fremst í þeim framtíðarávinningi sem felst í afkvæmum þeirra.


Sérstaklega þegar um ungar hryssur er að ræða taka aðrir þann pól í hæðina að koma fram með þær síðar í dóm í þeirri trú að þær hækki en meira og kynni sig og þá ræktun sem þær eru komnar úr meira og betur.  Þetta á ekki síst við þegar hryssur koma í dóm á þeim árum sem ekki eru Landsmót.
Stundum, ekki síst þegar ræktendur eru atvinnu og keppnisfólk er tekin sú ákvörðun að „fórna“ nokkrum árum til að nota hryssurnar í keppni, þar skapast oft góð kynning á hrossið og ekki síður viðkomandi knapa og geta verðmæti verið í því fólgin.
Þá er það ekki óalgegnt að þessar hryssur séu seldar, annaðhvort hér heima eða til útlanda enda er oft um gríðarlegar upphæðir að ræða þegar viðskipti eiga sér stað með ungar og hátt dæmdar hryssur.
Í þessu er ekkert rangt eða rétt, ákvörðun er tekin eftir mati og aðstæðum hvers og eins ræktanda eða eiganda. Það er samt spennandi að fylgjast með því hvað verður um þær ungu hryssur sem standa sig vel á sýningum og þess vegna ákvað Eiðfaxi að forvitnast aðeins um hvert hlutverk þeirra hryssna er í dag sem hæsta dóma hlutu í fjögurra vetra flokknum á síðasta ári.
Þær hryssur sem við ætum að frétta af eru Ronja frá Hlemmiskeiði 3, Hrund frá Ragnheiðarstöðum og Skógardís frá Blesastöðum 1A.


Ronja frá Hlemmiskeiði sem stóð efst af þeim fjögurra vetra hryssum sem komu til dóms á  síðasta ári. Ronja er úr ræktun Árna Svavarssonar og Ingu Birnu Ingólfsdóttur og í þeirra eigu, hún er undan Kráki frá Blesastöðum og Kjarnorku frá Hlemmiskeiði sem er undan Hrafni frá Hrafni frá Holtsmúla. Ronja fékk 8,11 fyrir sköpulag og 8,40 fyrir kosti sem gerir aðaleinkunn uppá 8,29.


 Árni Svavarsson annar eigandi Ronju varð fyrir svörum, hann sagði okkur að stefnan hefði verið að mæta með Ronju í dóm aftur í vor en það hefði eðlilega riðlast.  Nú væri hún kominn í þjálfun að Blesastöðum, það væri búið að hoppa nokkrum sinnum á bak henni og stefnan væri að mæta með hana til dóms á Gaddstaðaflötum nú um mánaðarmótin.  
Í framhaldinu væri svo stefnan að hafa hana gelda eitt ár til og horfa þá til væntanlegs Landsmóts árið 2011.  Þegar Árni var spurður hvað hann teldi sig fá út úr því að halda hryssunni geldri þetta lengi stóð ekki á svari, „ það er nú bara til að næra hégómagirndina og vitleysisganginn, auðvitað á svona hryssa bara að vera í folaldseign“ en svo bætti hann við, „ nei það er sjálfsagt einver kynning fólgin í þessu fyrir búið og svo fannst manni kannski að svona hryssa ætti skilið að komast á Landsmót“.  En næsta ár þá verður Ronja sett í stóðið á Hlemmiskeiði og notuð þar í ræktun,  þegar Árni var spurður hvort þau væru farin að huga að stóðhesti til að halda henni undir sagðist Árni nú bara fórna höndum þegar væri farið að hugsa um það enda mikið eftir að gerast áður en sú ákvörðun yrði tekin.

Hrund frá Ragnheiðarstöðum var önnur í röðinni, hún er úr ræktun Helga Jóns Harðarsonar og í hans eigu til helminga á móti Hjarðartúni ehf sem Óskar Eyjólfsson stendur fyrir. Hrund er stórættuð svo ekki sé meira sagt, undan Orra frá Þúfu og hinni eftirminnilegu Hendingu frá Úlfstöðum sem er undan Jarli frá Búðardal og með 8,47 í aðaleinkunn. Hrund hlaut 8,13 fyrir sköpulag, fyrir kosti hlaut hún 8,29 og í aðaleinkunn 8,22.


Það er Helgi Jón sem verður fyrir svörum þegar Eiðfaxi fer að forvitnast um Hrund.  Hryssunni var ekki haldið í fyrra segir Helgi, stefnan var Landsmót í sumar en svo kom þessi veikindapakki sem náttúrulega breytti öllu. Nú er hryssan komin aftur í trimm hjá Erlingi í Langholti og stefnan er að sýna hana aftur í kynbótadómi á Hellu seinna í sumar.
Það er búið að taka ákvörðun um að eftir sýningu í sumar fari hún í folaldseignir. Sú ákvörðun var ekki einföld, en það er ákveðið óöryggi ennþá með Landsmót næsta sumar svo það er varla hægt að fara að bíða lengur með hana, þetta er það verðmæt ræktunarhryssa. Tvö systkini hennar eru á leiðinni sem halda vonandi uppi merkinu næsta ár, Herjólfur frá Ragnheiðarstöðum sem er fjögurra vetra foli undan Gígjari frá Auðsholtshjáleigu sem var taminn í vetur og þykir efnilegur og svo kemur alsystir Hrundar til tamningar í haust.   Hitt er svo annað mál að það er mjög freistandi að sjá fram á að eiga möguleika á að koma með þrjú systkini á Landsmót, auðvitað væri það góð kynning fyrir hrossin en svo væri það líka alveg óskaplega gaman, og það er nú stór hluti af hrossarækt í mínum huga, skemmtunin við hana.


En þá kemur stóra spurningin til Helga, hvaða stóðhestur verður fyrir valinu í sumar fyrir Hrund ?
„Það koma þrír til greina" segir Helgi en bætir svo við, "nei eiginlega bara tveir Héðinn frá Feti eða Krákur frá Blesastöðum.“  Og þegar Helgi er spurður hvers vegna þessir hestar þá stendur ekki á svari: „Það er mjög spennandi blóð í Héðni, og þá fyrst og fremst Baldur frá Bakka, það finnst mér eftirsóknarvert og það væri gaman að eignast stóðhest sem væri kominn út af honum, það eru fallegir litir bakvið Héðinn, grátt, skjótt og vindótt og svo virðist hesturinn vera mjög góður. Krákur aftur á móti er að sanna sig sem afburða kynbótahestur, léttbyggður og fallegur með afburðagott tölt.“

Skógardís frá Blesastöðum er úr ræktuninni á Blesastöðum 1A hjá þeim Magnúsi Trausta og Hólmfríði og í eigu Magnúsar.  Skógardís er Kráksdóttir eins og Ronja, en móðir hennar er hin kunna kynbótahryssa Þöll frá Vorsabæ II sem reyndist þeim Blesastaðabændum farsæl ræktunarhryssa. Undan Þöll hafa komið sex afkæmi til dóms og hafa öll hlotið 1. verðlaun utan ein hryssa sem hlaut 7,96 en þá aðeins fimm vetra gömul. Meðal kunnra afkvæma undan Þöll eru meðal annars stóðhestarnir Falur, Kiljan og Bjarkar frá Blesastöðum.


Við hringdum að Blesastöðum og spurðum Magnús bónda spjörunum úr varðandi Skógardís. Ekki kom það okkur á óvart að hugmyndin hafi verið að mæta með hana á Landsmót í sumar.  En í dag er byrjað að þjálfa hana en hún var frekar sein að fara í gegnum flensuna þannig að hún kemur tæplega í dóm í sumar.
Það á að halda henni geldri og koma með hana í dóm næsta ár með Landsmót í huga, ef það verður Landsmót 2011. Svo er líka hugmynd að koma henni meira á framfæri, mæta með hana á sýningar og uppákomur og jafnvel að hún komi eitthvað fram í keppni. „Hryssan er gríðarlega flott og fín týpa til að nota í kynningu og hentar í keppni, það gera það ekki allar hryssur þó þær séu góðar, ekki allar týpur sem henta í keppni og svona uppákomur“ segir Magnús en bætir svo við, „ svo er ekki hægt að neita því að það skiptir máli að hún er undan Kráki okkar, það er hestur sem við höfum trú á og það er engin kynning betri fyrir stóðhest en góð afkvæmi.“


Við höfum nú í gengum tíðina sjaldan leyft okkur þetta, hér áður þegar það vantaði alltaf hryssur í stóðið þá hélt maður bara hryssunum um leið og þær voru búnar að fara í dóm, stundum var þeim haldið þriggja vetra og tamdar á fimmta. En nú er nógur fjöldi af hryssum í stóðinu þannig að það er hægt að gera þetta svona, það er óneytanlega mjög skemmtilegt að hafa bestu hryssurnar lengur í þjálfun og kynnast þeim betur.
Það hefur komið upp sú hugmynd að fara með hana í fósturvísaflutninga í sumar, það er freistandi með ungar hryssur að geta fengið undan þeim afkæmi en verið samt með þær í þjálfun, við tökum endanlega ákvörðun um það næstu daga.


Magnús telur að þróunin verði meira í þá átt að hryssur verði lengur í þjálfun og komi meira fram, „það er meira fylgst með hryssunum sem ná alveg uppí topp í brekkunni, afkvæmin fæðast þá sem þekkt stærð og það verður léttara að selja þau. Fólk horfir á þau öðrum augum og eins verður léttara að fá notkun á unga stóðhesta undan þessum hryssum sem hafa komið mikið fram og kynnt sig vel.“  Magnús er greinilega búinn að hugsa þessi mál töluvert og hefur ákveðna stefnu í þeim, hann heldur svo áfram „Það má samt ekki bíða of lengi, það er verið að fórna verðmætum þegar góðar hryssur standa geldar og maður hefur líka oft séð að það er erfitt að koma fullorðnum hryssum í gang sem hafa verið í mikilli þjálfun og keppni lengi, maður má ekki bíða lengur en til svona sjö vetra alveg hámark átta vetra. Hitt er svo annað mál að það er hverju búi nauðsynlegt að hafa eitthvað flaggskip á hverjum tíma sem kynnir búið.“ sagði Magnús að lokum.

Við hér á Eiðfaxa þökkum þessum ræktendum fyrir spjallið og óskum þeim góðs gengis með hryssurnar í framtíðinni.  Það verður gaman að fylgjast með þeim og afkæmum þeirra og gott að vita að von sé á að þær verði í ræktun hérlendis áfram. -hg