þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjögur af sex hæst dæmdu kynbótahrossunum undan Sæ

29. júní 2012 kl. 13:00

Arion frá Eystra-Fróðholti. Knapi á myndinni er Daníel Jónsson, sem er greinilega ánægður með folann. Mynd/KollaGr.

Ræktunarhópur frá Eystra-Fróðholti mun taka þátt ræktunarbússýningum í kvöld

Sær frá Bakkakoti á fjögur af sex hæst dæmdu kynbótahrossunum á LM2012. Sonur hans Arion frá Eystra-Fróðholti er með hæstu aðaleinkunn mótsins, 8,67, knapi Daníel Jónsson. Jafn honum er Hrannar frá Flugumýri II, Kraftssonur frá Bringu.

Arion er hins vegar árinu yngri, er sýndur í 5 vetra flokki en Hrannar er sex vetra. Óhemju gæðingar báðir tveir, Arion með 8,94 fyrir kosti og Hrannar 8,85.

Með þriðju hæstu aðaleinkunn er Spá frá Eystra-Fróðholti, 8,63. Hún skaust upp fyrir Kolku frá Hákoti á yfirlitssýningunni og má þakka það snilldar reiðmennsku Daníels Jónssonar, sem einnig er knapi á Arion.

Krókur frá Ytra-Dalsgerði, 6 vetra, er með fjórðu hæstu aðaleinkunnina, 8,60. Knapi Anna Valdimarsdóttir. Fyrir sköpulag  er Krókur með 8,66 og 8,56 fyrir kosti. Hann er undan Gára frá Auðsholtshjáleigu.

Þá kemur Sjóður frá  Kirkjubæ, 5 vetra, með 8,60 einnig, en með 8,88 fyrir kosti. Knapi Guðmundur Björgvinsson. Sjóður mátti sjá á eftir fyrsta sætinu í 5 vetra flokki til Arions bróður síns. 

Með sjöttu hæstu aðaleinkunn er svo Konsert frá Korpu, sonur Sæs, með 8,58 og er hann efstur í elsta flokki stóðhesta, knapi John Sigurjónsson. Konsert var hæstur í 6 vetra flokki á LM2011 í fyrra.