þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Firna sterkir fimmgangarar

Jens Einarsson
26. ágúst 2010 kl. 10:43

Hinrik Bragason á Glym efstur eftir forkeppni

Fimmgangarar í hesta-íþróttakeppni hafa líklega aldrei verið betri en um þessar mundir. Í B úrslitum á Íslandsmóti fullorðinna, sem nú fer fram á Sörlastöðum í Hafnarfirði, eru Íslands- Meistaradeildar- og Norðurlandsmeistarar í greininni. Ótrúlegt en satt.

Í A úrslitum er aðeins einn keppandi sem hefur verið áberandi á toppnum nokkur undanfarin keppnistímabil, Sigurbjörn Bárðarson á Stakki frá Halldórsstöðum með 7,40. Það er hins vegar gamall lærlingur hans sem vermir fyrsta sætið eftir forkeppni, Hinrik Bragason á Glym frá Flekkudal, stóðhesti undan Keili frá Miðsitju og Pitlu frá Flekkudal. Þeir félagar eru að koma afar sterkir inn í fimmgangsgreinum þetta tímabilið.

Allir keppendur í A úrslitum eru með yfir 7,0 í einkunn eftir forkeppni, sem eru tíðindi. 34 keppendur eru með 6,0 og hærra, sem segir okkur að breiddin í fmmgangi er meiri en hún hefur verið í mörg ár. Sennilega aldrei verið meiri.

Aðeins 52 keppendur af þeim 79 sem skráðir voru luku keppni. Sennilega hefur hrossapestin haft þar áhrif. Hún hefur reynst óútreiknanleg og farið eigin leiðir. Hestar eru hressir í dag en slappir á morgun. Það verða þó að teljast gleðitíðindi að 52 fimmgangarar eru eldsprækir og hafa sjaldan verið hressari.