þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimmgangur í meistaradeild

23. mars 2017 kl. 10:50

Eiðfaxi fékk hestamenn til að spá fyrir um úrslit kvöldsins og sitt sýnist hverjum

Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum verður haldin í kvöld í Samskipahöllinni í Spretti.
Keppnisgreinin kvöldsins er fimmgangur og er spennan í einstaklings og liðakeppni að aukast.

Eins og gefur að skilja þegar slík keppni fer í gang að þá er margt rætt á kaffistofum hestamanna. Spá um úrslit keppninnar eru þá oft á baugi og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Blaðamaður Eiðfaxa ákvað að fá hestamenn til þess að spá fyrir um tíu efstu hesta í kvöld.
Taka skal fram að þetta er til gamans gert.

Kristinn Hugason, hrossaræktandi í Ytra-Dalsgerði og fyrrv. hrossaræktarráðunautur

Ég tek með glöðu geði þátt í þessum leik sem er nú æði vandasamur í ljósi einstaks styrkleika knapa og hesta, þannig að í flestum tilvikum munu smáatriði skilja að sauði frá höfrum.

Ég spái því að þessi 10 pör munu skipa topp-10 og fá þar með stig:

Árni Björn og Oddur, Bergur og Hrafn, Daníel og Þór, Guðmar og Sólbjartur, Guðmundur Bj. og Sjóður, Hinrik og Milljarður, Hulda Gústafs. og Birkir, Jakob Svavar og Skýr, Sigurbjörn og Álfsteinn og Silvía og Héðinn Skúli.

Af þessum 10 tel ég að knappast standi með Berg og Hrafn og Hinrik og Milljarð. Ég tel því allteins líklegt að Teitur og Hafsteinn og Bjarni Bj. og Hnokki kæmu inn í topp 10.

Hvað úrslitin snertir tel ég að þar muni eftirfarandi verða uppi á teningnum: Árni Björn og Oddur, Daníel og Þór, Guðmar og Sólbjartur, Guðmundur Bj. og Sjóður,  Hulda Gústafs. og Birkir og Silvía og Héðinn Skúli. Þarna verður ekki síður mjótt á mununum og teldi ég að vel gæti farið svo að í stað Guðmars og Sólbjarts og Guðmundar Bj. og Sjóðs kæmu Hinrik og Milljarður og Sigurbjörn og Álfsteinn inn í úrslitin. Það væri óneitanlega gaman þar eð ekki gerist oft í afreksflokki í nokkurri íþrótt að feðgin keppi í sömu úrslitunum.

Spádómur minn um fjögur efstu sætin er þessi.
1: Árni Björn Pálsson á Oddi frá Breiðholti,
2: Hulda Gústafsdóttir á Birki frá Vatni,
3: Daníel Jónsson á Þór frá Votumýri
4: Silvía Sigurbjörnsdóttir á Héðni Skúla frá Oddhóli. 

Tek fram að hér er um spádóm að ræða sem er mikilli óvissu undirorpinn. Hlakka mikið til kvöldsins. Góða skemmtun! 

Róbert Bergmann tamningamaður og mjaltastrákur í Bakkakoti

Ég þykist vita að framundan sé gríðarlega sterk fimmgangskeppni. Það eru margir hestar skráðir til leiks sem við höfum áður séð standa sig vel og einhverjir þeirra staðið í fremstu röð í þónokkurn tíma, en einnig eru þarna feikna sterkir hestar sem verður spennandi að sjá stíga sín fyrstu skref í þessari grein.
Það er erfitt að raða í úrslitin því hart verður barist um efstu sætin en skjótt getur veður skipast í lofti eins og við vitum. Megi sá besti vinna!

1. Sylvía og Héðinn-Skúli
2. Hulda Gústafs og Birkir
3. Árni Björn og Oddur
4. Danni Jóns og Þór
5. Sigurbjörn og Álfsteinn
6. Gummi Björgvins og Sjóður
7. Jakob Svavar og Skýr
8. Bjarni og Hnokki
9. Bergur og Hrafn
10. Ásmundur og Eva

Sigurður Rúnar Pálsson tamningamaður og reiðkennari að Flugumýri í Skagafirði

Það er alveg ljóst að þetta verður spennandi fimmgangur og hörð keppni. Held að hún verði sterkari en í fyrra en þessi grein getur þó reynst knöpum fallvöllt þar sem mistök í skeiðspretti geta orðið dýrkeypt. Èg veðja mest a reyndustu keppnispörin með nokkrum undartekningum þó. Set Jakob og Ský frekar ofarlega á listan, þó að ég hafi ekki séð hann í fimmgangi áður. Ég þurfti að hugsa mig vel um hvernig raðaðist á pallinn. Átti erfitt með að ákveða hvor yrði efstur Árni eða Danni og ég held að það verði mjótt á munum eins og í fyrra, en hef trú á að Teitur og Hafsteinn geti gert usla í úrslitunum með frábærum skeiðsprettum. Hulda og Birkir og Sylvía og Héðinn munu standa fyrir sínu. Í heildina held eg að það muni ekki koma mikð á óvart efstu hestar munu flestir vera þeir sömu og voru að gera það gott í fimmgangi á síðasta ári.

1.Árni og Oddur
2.Daniel og Þór
3. Teitur og Hafsteinn
4. Hulda og Birkir
5.Sylvía og Héðinn-Skúli
6. Jakob og Skýr
7.Guðmundur og Sjóður.
8. Sigurður og Gormur
9.Eyrún Ýr og Heikir
10. Hinrik og Milljarður