föstudagur, 15. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm stjörnu Hrossafræði

6. febrúar 2011 kl. 14:21

Fimm stjörnu Hrossafræði

Í Lesbók Morgunblaðsins um helgina fær fræðibók Ingimars Sveinssonar á Hvanneyri Hrossafræði Ingimars: Alhliða upplýsinga- og fræðirit um hesta fullt hús stjarna hjá gagnrýnanda.

Hrossafræði Ingimars er er safn fróðleiks sem Ingimar hefur viðað að sér og inniheldur sögu hestsins og lærdóm um hestahald í víðu samhengi, fóðrun, meðferð, frjósem, uppeldi, tamningu og þjálfun.

Í dóm Morgunblaðsins segir m.a.:

Þetta er bók sem byggist ekki á neinni tilfinningasemi eða nýjustu tískustraumum í tamningu eða fóðrun. Þetta eru hrossafræði af skynsemi. Ingimar býr að mikilli þekkingu og reynslu og hefur áratugum saman viðað að sér fróðleik um hesta og hestahald og eru efnistök hans skýr og aðgengileg.

Síðar segir:

“Fáir eru jafn mikill fróðleiksbrunnur um íslenska hestinn og Ingimar og það er öðrum áhugamönnum um íslenska hestinn í nútíð og framtíð ómetanlegt að hann hafi sett hrossafræði sín í eina bók fyrir þá til að njóta og læra af.” 
("Hrossafræði af skynsemi", Lesbók Morgunblaðsins, 6. febrúar, bls. 47)

Ingimar Sveinsson hefur nú verið tilnefndur til viðurkenningar Hagþenkis fyrir verk sitt. Viðurkenning Hagþenkis eru verðlaun félags höfunda fræðirita og kennslugagna sem veitt eru ár hvert fyrir samningu fræðirita, kennslugagna, rannsókna og miðlun þeirra. Tíu höfundar fá tilnefningu en að mánuði liðnum mun einn hljóta viðurkenninguna.

Ingimar er vel að tilnefningunni kominn og óskar Eiðfaxi honum til hamingju með áfangann.

Á heimasíðu Uppheima, útgáfufélags bókarinnar, kemur fram að Hrossafræði Ingimars sé ófáanleg, þar sem hún er uppseld. Önnur prentun bókarinnar er væntanleg innan skamms.