laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm keppnishross veik á NM2010 í Finnlandi

Jens Einarsson
4. ágúst 2010 kl. 10:27

Fengu hita og eru í einangrun

Tveir hestar í íslenska landsliðinu og þrír í danska liðinu á NM2010 í Finnlandi eru veikir. Hestarnir greindust með hita þegar þeir komu á mótsstað og voru settir í einangrun. Bjarnleifur Bjarnleifsson, formaður landsliðsnefndar og fararstjóri íslenska liðsins, segir að svo virðist sem um væga hitasótt sé að ræða. Enginn hósti fylgi veikinni og engar tilgátur séu um að þetta sé sama pestin og hefur geisað á Íslandi. Eftir því sem hann best viti séu flest hrossin orðin hitalaus. Þeim verði þó haldið í einangrun þar til búið sé að greina hvað ami að þeim.

Hestarnir í íslenska liðinu sem veiktust eru Höfði frá Snjallsteinshöfða, keppnishestur Jóhanns Skúlasonar sem býr í Danmörku, og Gormur frá Selfossi, keppnishestur Freyju Amble sem býr í Noregi. Að öllum líkindum eru þau dottin úr keppni. Það kemur þó ekki í ljós fyrr en í fyrramálið, en þá hefst keppni í fjórgangi. Sé hestur eða keppandi forfallaður þarf að tilkynna það með klukkustundar fyrirvara. Ef greining verður komin úr blóðsýnum sem tekin voru úr hestunum og grænt ljós gefið á fyrir þann tíma að þeir megi fara saman við önnur hross, geta þau tekið þátt í keppni.