föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

FH vill ekki ójöfnuð milli norðurs og suðurs

28. apríl 2011 kl. 14:01

FH vill ekki ójöfnuð milli norðurs og suðurs

Fulltrúar Félags hrossabænda eru ósammála tillögum Landsmótsnefndar um að halda Landsmót tvisvar á Suðurlandi á móti hverju einu skipti á Norðurlandi.

Þetta kom fram á formannafundi Félags hrossabænda, sem fór fram í Bændahöllinni 14. apríl sl. Þá sköpuðust umræður um skýrslu Landsmótsnefndar og voru fundarmenn sammála um að ekki væri ásættanleg sú tillaga nefndarinnar að halda mótin tvisvar á Suðurlandi á móti hverju einu skipti á Norðurlandi. Eftirfarandi ályktun var í kjölfarið samþykkt samhljóða. 

"Formannafundur Félags hrossabænda haldinn í Bændahöllinni 14. apríl 2011 hvetur stjórn Bændasamtaka Íslands og fulltrúa hennar í stjórn LM ehf. að halda fast við þá stefnu að Landsmót hestamanna verði haldin á landsbyggðinni, til skiptis norðan- og sunnanlands. 

Greinargerð: 
Í nýlegri skýrslu, sem ber yfirskriftina “Landsmót, þróun, staða og tillögur um framtíðarskipan” er lagt til að Landsmót hestamanna skuli haldin tvisvar á Suðurlandi á móti hverju einu móti norðanlands. Þetta gengur hinsvegar í andstöðu við ályktun stjórnar FHB sem lögð var fyrir Búnaðarþing 2010. 

Líkt og fram kemur í áðurnefndri skýrslu er talið að enginn einn viðburður hérlendis dragi að sér jafn marga erlenda gesti sem Landsmót og er mótið lyftistöng fyrir alla þætti hestamennskunnar og hefur auk þess miklu víðtækari áhrif á því svæði sem það er haldið á. 

Það er mikil félagsleg ósanngirni og ójöfnuður gagnvart hrossaræktendum á Norðurlandi og jafnvel víðar að leggja til að lengja tímann milli Landsmóta frá því sem verið hefur. Mikilvægt er að forysta bænda standi saman um að hafna slíkum hugmyndum."