föstudagur, 15. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fetið er göfugasta gangtegundin

18. desember 2014 kl. 12:00

Portúgalski reiðkennarinn Júlio Borba ásamt Álfhildi frá Syðri-Gegnishólum.

Þörf á skýrari viðmiðunarreglum í keppni að mati reiðkennarans Júlio Borba.

Portúgalski reiðkennarinn Júlio Borba er í viðtali í 12. tölublaði Eiðfaxa.  Hann hefur notið mikilla vinsælda hér á landi en hann hefur reglulega vanið komur sínar í átta ár til að miðla þekkingu sinni. Hér er brot úr viðtalinu:

Júlio Borba bendir á að vandamál íslenska hestsins sé ekki hann sjálfur heldur íslenski hestaheimurinn. Viðmiðunarreglurnar í keppni séu til að mynda ekki nógu skýrar. Hann tekur sem dæmi greitt tölt í töltkeppni „Er það hraði sem þið viljið eða eru það gæði? Ef það er hraði sem þið viljið af hverju takið þið ekki tímann á hestunum? Takið tímann og sjáið hver er sá hraðasti. Viljið þið sjá gæði, hest sem lengir skrefin og kemur inn undir sig með afturfæturna? Ég er ekki að segja að annaðhvort sé betra en hitt. Einungis það að þetta er ekki sami hluturinn. Þetta þarf að vera skýrt. Hvort er verið að biðja um?“ spyr Júlio Borba og telur að skilgreina þurfi betur viðmiðunarreglur til að auðvelda keppendum undirbúningsvinnuna. „Annað sem hægt væri að betrumbæta er fetið. Af hverju er fetið ekki sýnt eins og töltið, þ.e.a.s. með mismunandi útfærslum? Hví ekki að fara fram á safnað fet á einhverjum hluta vallarins? Í dag sérðu knapa hamast­ við að pússa hnakkana í fetsýningum að því marki að maður sér næstum því reyk stíga upp frá þeim. Áhorfendur sjá fetið sem pásu til að ná sér í bjór eða fara á klósettið. Svona á þetta ekki að vera að mínu mati. Fetið er göfugasta gangtegundin, hún er undirstaða allra hinna gangtegundanna en það er farið með hana eins og smábónda í íslenska hestaheiminum. Ef þessu yrði bætt við reglurnar myndi stærsti hluti hrossa sem tölta með afturfæturna fyrir aftan sig hverfa.“

Blaðið berst áskrifendum í næstu viku en nálgast má rafræna útgáfu þess hér. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.