föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fermingargjöfin kastaði merfolaldi

18. apríl 2013 kl. 12:33

Fermingargjöfin kastaði merfolaldi

„Urður Einarsdóttir fékk hryssu í fermingargjöf í fyrra. Öllum að óvörum kastaði merin í síðustu viku. Faðir hennar, Einar Örn Sigurdórsson, segir fjölskylduna ánægða með þennan óvænta glaðning,“ segir í frétt á Vísi.

„Við fengum merina afhenta í júníbyrjun og þá grunaði engan að hún gæti verið fylfull. Öllum að óvörum kastaði hryssan svo litlu merfolaldi í síðustu viku,“ segir Einar Örn Sigurdórsson, starfsmaður hjá Íslensku auglýsingastofunni, um skemmtilegan atburð sem átti sér stað í síðustu viku. Þá varð Urður Einarsdóttir, dóttir hans og Brynhildar Davíðsdóttur, óvænt einni merinni ríkari þegar hryssa sem hún hafði fengið í fermingargjöf kastaði litlu merfolaldi. 

Einar Örn segir að merin Sýn muni sinna móðurhlutverkinu í sumar og því verði lítið um útreiðartúra hjá dóttur hans. Folaldið er talið undan Gerpi frá Stóra-Sandfelli, en sá var með Sýn í geymslu síðasta sumar. „Pabbinn er úrvalsgæðingur, að mér skilst, sem búið er að selja út. Við fengum þarna topphest í kaupbæti,“ segir hann og hlær.

Urður, eigandi Sýnar, segir fréttirnar af folaldinu hafa komið sér skemmtilega á óvart. Hún heimsótti mæðgurnar um síðustu helgi og segir folaldið afskaplega krúttlegt, en það mun vera skjótt að lit, líkt og móðir þess, og braggast vel í sveitinni. „Það er lítið og mjúkt og algjör dúlla. Það er dálítið feimið og ekki jafn gæft og mamman,“ segir Urður sem mun dvelja sumarlangt hjá afa sínum og ömmu á bænum Arnbjargarlæk í Þverárhlíð. 

Alla fréttina í heild má lesa hér