þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ferðasaga hestafræðinga -

18. maí 2010 kl. 14:22

Ferðasaga hestafræðinga -

Á vef Háskólans á Hólum má finna skemmtilega ferðasögu frá 1.árs nemendum í hestafræðideild. Þau lögðu land undir fót og fóru kennararnir með þau í óvissuferð.

Þar sem hrossapestin lamaði meira og minna allt reiðmennskustarf innan skólans á vordögum var ákveðið að fara með 1. árs nemendur hestafræðideildar í óvissuferð. Það tókst vel að halda því leyndu fyrir nemendum hvert ferðinni var heitið og var mikil spenna í hópnum.

Lagt var af stað frá Hólum fimmtudaginn 6.maí kl. 6 að morgni og mættu 29 eldhressir krakkar ásamt Þorsteini Björnssyni reiðkennara. Keyrt var suður og komið við í Mosfellsbæ þar sem Sölvi Sigurðsson reiðkennari kom með. Síðan var ferðinni haldið áfram austur fyrir Fjall og var förinni heitið á hrossaræktarbúið á Feti. Þar tóku á móti okkur Anton Páll og Inga Mæja kona hans. Buðu þau okkur upp á æðislega súpu og sögðu okkur frá starfseminni á Feti. Síðan var farið í hesthúsið og skoðuð frábær aðstaðan þar. Anton tók fram gæðinginn Vilmund frá Feti og sýndi okkur í reiðhöllinni hvernig venjuleg þjálfunarstund væri hjá þeim. Síðan lögðu þau Inga, Linda og Anton á þrjú afkvæmi Vilmundar og sýndu okkur bæði úti og inni, má þar segja að þar séu spennandi hross á ferð.

Síðan héldum við áfram og fórum á Árbæjarhjáleigu þar sem Hekla Katarína (nemandi úr hópnum) býr. Þar sýndi hún okkur nýbyggt hesthús og reiðskemmu og fór á bak fyrir okkur. Aðstaðan hjá þeim er mjög skemmtileg. Þar spjallaði Kristinn og frú við okkur ásamt að segja okkur aðeins frá aðstöðu sinni.

Næst fórum við á Árbakka þar sem Hinrik og Hulda búa og reka tamningar og útflutningsmiðstöð. Þar fóru þau yfir aðstöðuna og sögðu okkur frá hrossunum sem voru í húsinu og hvernig þau starfa.

Síðan var förinni heitið á Hólaborg sem er sjúkra- og þjálfunarmiðstöð fyrir hross. Þá bættist Mette Mannseth reiðkennari við hópinn. Þar var tekið á móti okkur með snarli og aðstaðan skoðuð í bak og fyrir og mátti meðal annars sjá hringekju, titringsdýnu, og sundbretti.

Næst var haldið á Hvol þar sem Þorvaldur Árni og Ragnhildur eru með frábæra aðstöðu. Þar byrjuðum við á að skoða aðstöðuna þeirra sem er alveg frábær, síðan fórum við í setustofuna hjá þeim og þar fór Þorvaldur yfir allt það helsta um aðstöðuna, aðferðir og feril sinn. Síðan lagði hann á Losta frá Strandarhjáleigu og sýndi okkur skemmtilega og áhugaverða þjálfunarstund. Síðan fór hann og lagði á þann mikla gæðing Kiljan frá Steinnesi. Þar fengum við forskot á sæluna fyrir komandi kynbótadóm. Fór hann út á völlinn sem er rétt fyrir neðan hesthúsið og sýndi okkur klárinn.

Að lokum keyrðum við aftur heim að Hólum en stoppuðum á KFC til að fá okkur góða máltíð fyrir heimförina. Vorum svo komin heim um kl. hálftvö um nótt.

Ferðin var stórskemmtileg og gaman að sjá margbreytileikan hvað varðar aðstöðu og aðbúnað til tamningar og þjálfunar. Færum við þeim Sölva, Mette og Steina okkar bestu þakkir fyrir skemmtilega ferð.