fimmtudagur, 20. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ferðasaga frá Þýskalandi

9. júlí 2012 kl. 16:40

Ferðasaga frá Þýskalandi

FEIF youth cup er mót sem haldið er á tveggja ára fresti og að þessu sinni er það haldið í Verden í Þýskalandi. Mótið stendur yfir í eina viku en það hófst þann 7.júlí síðastliðinn og endar 15.júlí. Krakkarnir sem keppa eru á aldrinu 14 - 17 ára og að þessu sinni eru það Ágústa Baldvinsdóttir, Dóróthea Ármann, Glódís Helgadóttir, Harpa Sigríður Bjarnadóttir, Katrín Birna Vignisdóttir, Nína María Hauksdóttir, Snorri Egholm Þórsson, Súsanna Katrín Guðmundsdóttir, Þóra Höskuldsdóttir og Þórunn Þöll Einarsdóttir sem keppa fyrir Íslands hönd.  

Meðfylgjandi er smá ferðasaga frá fyrstu dögunum:Eftir langt og strangt ferðalag með flugvélum, nokkrum lestum, leigubíl og fótgangandi komum við loks á leiðarenda og allir örþreyttir. Þá var ævintýrið rétt að byrja.... einn hestur kom á staðinn um hálf tólf en dýralæknirinn ekki væntanlegur fyrr en kl. 14:00 þannig að Þórunn Þöll þurfti með dyggri aðstoð Snorra að bíða með hryssuna úti í hitanum þar til doksi mætti á svæðið 15:15... meðan kom Kóki og sótti Nínu Maríu, Glódísi, Ágústu, Katrínu, Þóru og Sif reiðkennara. Þær fóru á búgarðinn hans og prófuðu nokkra hesta og sýndi hann þeim þessa frábæru aðstöðu sem hann er með. Á meðan á þessu stóð voru Helga, Andrea, Hrefna og Dórótea að kanna aðstæður sem eru mjög góðar, bæði fyrir hesta og menn.

Þegar hópurinn kom til baka lögðum við okkur aðeins enda flestir búnir að vaka í 36+ klukkutíma. Það var svo ræs kl. 20:00 og fórum við á flottan pizzastað þar sem starfsmennirnir voru  nú ekkert voðalega ánægðir að fá okkur.. sennilega of stór pöntun í einu en frábær matur og ódýr. Við komum heim um kl. 22:00 og var það feginn hópur sem skallaði koddann það kvöld og fengum við sem betur fer að sofa út.

Á laugardag komu svo restin af hestunum og restin af hópnum en Súsanna Katarína og Harpa Sigríður fóru út á undan okkur og var mikil gleði þegar þær mættu á svæðið og hópurinn orðinn fullskipaður.

Við tók að dýralæknaskoða hestana og er það alltaf eilítið áhyggjuefni þegar það er gert. Við vitum lítið sem ekkert um þessa hesta og erfitt að þurfa að skipta um hest ef hann stenst ekki skoðun en allir þessir gæðingar stóðust skoðun með glans. Inní hesthús fóru þeir og hvíldu sig um stund og svo fóru krakkarnir á völlinn með Sif og prófuðu hestana. Það gekk nokkuð vel en Súsanna og hennar hryssa urðu viðskila um stund og var hryssan ekki að höndla umhverfið, var mjög stressuð og neikvæð. Ákveðið var síðar að skipta henni út fyrir aðra og gengur mjög vel með hana.

Æfingarnar hafa gengið vel hjá flestum en Þóra ætlar að skipta um hest og fer í kvöld (mánudag) að prófa nýjan hest.

Í gærkveldi var haldið þjóðarkvöld og vakti íslenska hangikjétið, harðfiskurinn og nammið frá Íslandi mikla lukku, við gáfum öllum þátttakendunum íslenskan lukkupening. Snorri og Súsanna glímdu og stelpurnar sungu undir. Snorri skoraði á einhvern í glímueinvígi og tók liðsstjórinn hans áskorunni. Hann er frá þýskalandi og er helmingi stærri en Snorri. Við höfðum pínu áhyggjur í byrjun en það var sko óþarfi því að sjálfsögðu vann okkar maður og hlaut mikið lófatak fyrir enda vel liðinn strákurinn, sérstaklega hjá pæjunum. Hann hefur verið í smá vandræðum með að halda þeim frá sér og hefur gripið til þess ráðs að segja að Þóra sé kærastan hans. Veit ekki alveg hvernig það er að virka.

Allir krakkarnir skemmta sér vel og eru að eignast nýja vini. Við erum rosalega ánægðar með krakkana en þetta eru frábærir einstaklingar sem eru landi sínu til sóma.

Með fararstjóra kveðju
Andrea og Helga.