fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ferðahestamennskan í góðum gír

27. október 2009 kl. 11:46

Ferðahestamennskan í góðum gír

Í efnahagsárferði dagsins í dag, þar sem hrossasala er með ágætasta móti bæði innanlands og út fyrir landssteinana, hugsar maður til ferðaþjónustunnar í okkar bransa, ferðahestamennskunnar. Hvernig stendur sú grein? Maður býst við aukningu..en er það raunin?

Eiðfaxi sló á þráðinn til Fríðu Rutar Stefánsdóttur hjá Eldhestum og kannaði málið.

Fríða, hvernig hefur sumarið verið hjá ykkur?
„Við erum mjög ánægð með tímabilið. Við merkjum aukningu í okkar vinsælustu ferðum, sem eru svokallaðar Combo-ferðir eða samsettar ferðir, þar sem fólk fer á hestbak og síðan í hvalaskoðun, Bláa Lónið eða sund. Þá eyðir það hjá okkur hálfum til heilum degi. Við sækjum okkar gesti yfirleitt á bíl eða rútu til Reykjavíkur og nú dugar varla tuttugu manna bíll á dag. Við erum líka farin að finna fyrir spennu og áhuga fyrir næsta ár og erum byrjuð að bóka þó nokkuð í ferðir næsta sumar.“

Hvað er vinsælast hjá ferðamönnunum?

„Það er 1,5-2 klst reiðtúr í nágrenni Hveragerðis, ferð sem við köllum Arfleiðaferðin. Henni lýkur svo með kaffi og heimabökuðu þegar til baka er komið. Síðan er það Óvissuferðin, sem er svipuð að lengd en við gerum það sem okkur dettur í hug á hverjum tíma. Við erum vitanlega háð veðrinu stóran hluta ársins en við finnum alltaf eitthvað út úr því. Svo er það Álfaleiðin svokallaða. Hún er svipuð að lengd og hinar tvær en farið er um álfaslóðir en margir hafa séð álfa í nágrenni okkar og jafnvel heyrt þá syngja. Ferðinni lýkur svo með léttum hádegisverði. Þessar ferðir hafa verið vinsælastar af því að vanir og óvanir geta farið saman.“

„Dagsferðirnar eru síðan þessar samsettu ferðir. Þá er til dæmis farið á hestbak og síðan á sjóinn í hvalaskoðun, upp á jökul, í flúðasiglingu niður Hvítá eða skoðunarferð upp að Gullfoss og Geysi.“

Hvað með Íslendinga? Eru þeir duglegir að nýta sér þjónustu ykkar?

„Já, þeir koma hingað í hópum yfirleitt, tengdum vinnu eða í tengslum við gæsa- og steggjapartý. Árshátíðirnar eru einnig oft haldnar hjá okkur og þá er margt skemmtilegt hægt að bardúsa hér í nágrenningu. Við rekum einnig hótel og tökum hesta í þjálfun, svo starfsemin er fjölbreytt.“

Einhverjar nýjungar frá ykkur á næstunni?
„Við ætlum að bjóða upp á reiðnámskeið í vetur, þar sem þátttakendur geta bæði fengið hesta hér og gist á hótelinu. Við hlökkum til að prófa það. Síðan höfum við fundið fyrir eftirspurn eftir meiri „lúxus“ í lengri ferðunum. Hann snýst þá um að bjóða upp á vandaðri gistingu, fólk vill í auknum mæli gista á hótelum frekar en í svefnpokanum sínum í ýmsum kofum eða skálum.“