sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Félag tamningamanna ályktar um áverka

12. desember 2011 kl. 11:33

Félagar í FT á LM2008.

Vill herða reglur um þátttöku keppnishrossa með áverka

Aðalfundur Félags tamningamanna var haldinn í Hafnarfirði á föstudaginn. Meðal annars var til umræðu áverkaskýrsla Sigríðar Björnsdóttur frá LM2011. Í kjölfarið sendi FT frá sér ályktun og hvetur alla þá sem stýra reglusetningum er varða keppni og sýningar hrossa til að samræma áverkaskoðanir og sjá til þess að hross séu skoðuð bæði fyrir og eftir keppni/sýningu.

Leggur félagið til að hross sem skoðast með áverka fyrir keppni/sýningu fái ekki að taka þátt og hross sem skoðast með áverka þar sem blóð sést að keppni/sýningu lokinni hljóti ekki einkunn eða verðlaun.

Greinargerð með ályktuninni hljóðar svo:
„Samkvæmt dýraverndarlögum og keppnisreglum skulu hross sem koma til keppni og sýninga vera ósár. Í ljósi niðurstaðna áverkaskoðana á keppnis- og kynbótahrossum sl. sumar er full ástæða til að bregðast við með afgerandi hætti. Velferð hestsins skal ávallt höfð að leiðarljósi, bæði í þjálfun og keppni.“