föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Félag hrossabænda í markaðsátaki

3. mars 2011 kl. 10:06

Guðlaugur, Kristinn og Haraldur eru helstu oddvitar í hestamennsku á Íslandi.

Hinn almenni hestamaður og ferðahesturinn í sviðsljósið

Félag hrossabænda beinir nú athygli sinni meira að hestatengdri ferðaþjónustu og hinum almenna hestamanni í nýju markaðsátaki, sem verður kynnt í miðstöð Íshesta í Hafnarfirði í dag. Þetta kom fram á fundi oddvita í hestamennsku, sem haldinn var á Selfossi í gærkvöldi. Framsögumenn voru Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda, Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur, og Haraldur Þórarinsson, formaður LH.

Hið nýja markaðsátak er "Netverkefni", eða svokölluð "viral" herferð í anda Inspired by Iceland", sem sett var í gang í kjölfar efnahagshrunsins: Allir senda öllum tengla á Netinu og dreifingin eykst jafnt og þétt, eins og segir í útskýringu með verkefninu. Notandinn getur valið myndskeið, sem tekin hafa verið sérstaklega fyrir þetta verkefni, og upplifað í gegn um þau hestamennskuna frá hinum ýmsu sjónarhornum. Meðal annars í hestferðum í íslenskri náttúru. Samskiptamiðlarnir Facabook, Twitter og Youtube verða notaðir til dreifingar á myndskeiðunum.

Kristinn og Haraldur eru sammála um að hinn almenni hestamaður og hestatengd ferðaþjónusta hafi ef til vill verið vanmetin og vanrækt. Þar séu þýðingarmikil sóknarfæri til að efla afkomu greinarinnar í heild. Þegar öllu séu á botninn hvolft sé það hinn stóri hópur frístundahestamanna og þeir erlendu ferðamenn sem komi til Íslands í hestaferðir, sem skapi mestu tekjurnar þegar á heildina er litið. Einnig eru þeir sammála um að áhyggjuefni sé hve allt er lýtur að hestamennskunni sé orðið dýrt. Hætta sé á að almennt launafólk ráði ekki við hestahald.

Á fundinum, sem er í hinni árlegu fundaröð fagráðs í hrossarækt, kynntu Guðlaugur og Kristinn að venju það sem efst er á baugi. Haraldur kynnti starfsemi LH. Nánar verður sagt frá því í Hestablaðinu, sem kemur út 17. mars.