fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

FEIF Youth Cup auglýsir eftir hestum

20. maí 2014 kl. 11:01

Hreingeng og hlýðin keppnishross óskast.

Nú í sumar mun æskulýðsnefnd Landssambands hestamannafélaga í samstarfi við FEIF alþjóðasamtök íslenska hestsins, halda hér á landi æskulýðsmót fyrir unglinga á aldrinum 14  - 17 ára. Mótið er haldið að Hólum í Hjaltadal dagana 11. – 20. júlí næstkomandi. Mótið sækja unglingar frá öllum aðildarlöndum FEIF og er haldið annað hvert ár í einhverju aðildarlandanna. Alls hafa 78 unglingar þátttökurétt og keppa þau sem koma erlendis frá á lánshestum.

Fyrstu tvo dagana eru keppendur að kynnast hestunum, síðan njóta þau tilsagnar þekktra þjálfara í þrjá daga, þá er farið í dagsferð um Skagafjörðinn og síðustu þrjá dagana keppa þau á hestunum, bæði í einstaklings- og liðakeppni.

Æskulýðsnefnd LH er með mikinn metnað fyrir þessum viðburði og er mjög í mun að mótið takist sem allra best og lögð hefur verið mikil vinna í það að fá til liðs við verkefnið þekkta einstaklinga úr hestaheiminum til að þjálfa keppendur.

 Án efa eru margir sem búa það vel að geta lánað/leigt hesta fyrir svona viðburð.  Þátttakendurnir greiða að hámarki 150 € í leigu fyrir hestinn. Hesturinn þarf að vera heilbrigður, örmerktur og skráður í Worldfeng. Þeir hestar sem henta í verkefnið þurfa að vera hreingengir, hlýðnir og tiltölulega auðveldir. Keppt er í hringvallagreinum, tölti, fjór- og fimmgangi ásamt skeiði, þrautabraut, víðavangshlaupi, fimi og fánakappreið. Hestarnir þurfa ekki að vera hágengir en að sjálfsögðu hjálpar það.

 Þeir hesteigendur sem hafa hesta í verkefnið eru beðnir að senda upplýsingar á netfangið lh@lhhestar.is með smá lýsingu á hestinum og IS-númer hans fyrir 15. júní nk. Einnig er hægt að hafa samband við nefndarmenn æskulýðsnefndar LH en nöfn þeirra eru á heimasíðu LH www.lhhestar.is undir Æskan.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá formanni æskulýðsnefndar LH, Helgu B. Helgadóttur.