laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

FEIF dómarar lítið hrifnir af hálfstöngum

6. september 2010 kl. 12:46

FEIF dómarar lítið hrifnir af hálfstöngum

Í viðhorfskönnun sem dómaranefnd FEIF lét nýlega gera á meðal alþjóðlegra íþróttadómara...

kom fram að dómararnir eru lítið hrifnir af svokölluðum hálfstöngum og reyndar öllum keðjulausum stangabúnaði. Mikill meirihluti dómaranna taldi þennan beislabúnað ekki henta íslenskum hestum í keppni og sýningum. Þá voru dómararnir mjög gagnrýnir á notkun ensks múls með skáreim samhliða framangreindum búnaði. Í framhaldi af könnuninni hefur dómaranefndin farið þess á leit við FEIF að endurskoðað verði hvort keðjulausar stangir skuli áfram leyfðar í keppni og á kynbótasýningum. Þá var einnig farið fram á endurskoðun óheftrar notkunar á enskum múl með skáreim. Dómaranefndin bendir á að keðjulausar stangir séu ekki hannaðar með viðvarandi taumsamband í huga og hæfi því ekki í keppni og á sýningum. Þar er einnig bent á að enskur múll með skáreim fari flestum stöngum illa og að í sumum tilvikum geri samhæfð virkni búnað þennan mjög harðan. Í bréfi sem dómaranefndin hefur sent alþjóðadómurunum er lögð áhersla á að dómararnir taki harðar á misnotkun beislisbúnaðar en verið hefur og leggur til að dómarafélög aðildarlandanna beiti sér fyrir aukinni fræðslu á meðal dómara um þessi mál.