mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Feðgin hlutu knapaverðlaun - Hólaskóli ræktunarbú ársins

12. desember 2011 kl. 10:35

Feðgin hlutu knapaverðlaun - Hólaskóli ræktunarbú ársins

Uppskeruhátíð skagfirskra hestamanna fór fram í Tjarnabæ á Sauðárkróki föstudagkvöldið 9. desember sl. Þar voru afhent afreksverðlaun ársins til hrossaræktenda og knapa í Skagafirði.

Feðginin Elvar E. Einarsson og Ásdís Ósk Elvarsdóttir á Skörðugili hrepptu titilinn Knapi ársins hvort í sínum flokknum. Elvar hreppti sem kunnugt er silfurverðlaun á heimsmeistarmótinu í Austurríki í sumar í 100 metra skeiði á Kóngi frá Lækjarmóti og var valinn knapi ársins í fullorðinsflokki. Ásdís Ósk var heiðruð sem knapi ársins í barnaflokki en í ár varð hún m.a. Íslandsmeistari í tölti og í þriðja sæti í fjórgangi ásamt því að vera lunkinn að leggja á skeið og faðir sinn. Knapi ársins í unglingaflokki var kjörinn Jón Helgi Sigurgeirsson og knapi ársins í ungmennaflokki varð Hallfríður Óladóttir.

Hrossaræktarsamband Skagfirðinga afhenti þrjú afreksverðlaun sambandsins í ár. Eigendur Þóru frá Prestsbæ, Inga og Ingar Jensen, tóku við Sörlabikarnum en þau eru veitt hæst dæmda kynbótahrossi í eigu félagsmanns. Þóra stóð efst kynbótahryssna á Landsmóti í sumar með 8,77 í aðaleinkunn.

Kraftsbikarinn fór í hendur Mette Mannseth, en verðlaunin hlýtur sá knapi sem bestan árangur nær á kynbótabrautinni.  Mette sýndi 19 hross á árinu, 17 af þeim hlutu 8 eða hærra í aðaleinkunn, þar af mörg með háan hæfileikadóm s.s. Seiður og Segull frá Flugumýri II, Hnokki og Háttur frá Þúfum, Eldur frá Torfunesi og Þrift frá Hólum.

Hólaskóli var hins vegar valið Ræktunarbú ársins í ár og hlaut að launum Ófeigsbikarinn.  Fimm hryssur frá búinu fóru yfir 8 í aðaleinkunn á árinu.  Þar á meðal var Þrift frá Hólum sem var í 2 sæti á LM2011 í elstaflokki, Ferna frá Hólum sem var í 4 sæti í flokki fimm vetra hryssna og Storð frá Hólum sem er aðeins fjögra vetra.  Þá voru þrír hestar frá búinu í úrslitum á stórmótum, Þúsöld, Þórir og Þröstur.