sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fákur sækir um Landsmót 2016

19. desember 2011 kl. 12:52

Frá LM2000 í Reykjavík.

Megum ekki láta hreppapólitík ráða för, segir formaður Fáks

Rúnar Sigurðsson, formaður Fáks, reifar Landsmótsmál hestamanna í pistli á vef Hestafrétta. Ekki verður annað skilið en Rúnar telji Landsmótum best borgið hjá Fáki í Reykjavík, bæði félagslega og fjárhagslega. Uppbygging sem þarf að eiga sér stað vegna Landsmótahalds hafi þegar farið fram í Fáki með fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar, sem hafi einnig heitið stuðningi við Landsmót í Reykjavík 2016.

Rúnar bendir á að mikill áhugi sé fyrir HM2013 í Berlín og að mótshaldarar reikni með að uppselt verði á mótið löngu fyrir tímann. Hagnaður fyrir borgarsamfélag sem heldur slíkt mót sé mikill og gera megi ráð fyrir einum og hálfum milljarði í tekjur fyrir afleidda þjónustu.

Rúnar segir að fjárhagsleg staða Landsmóts ehf. sé ekki sterk eftir hestapestina og fámennt Landsmót á Vindheimamelum á þessu ári. Ef allt fari að óskum í Reykjavík á LM2012 megi búast við 15 - 18 þúsund gestum, þar af 5 - 7 þúsund útlendingum. Ekki þurfi að fara í grafgötur með það að langbesta aðstaðan til að halda Landsmót hestamanna sé í Reykjavík. Hestamenn verði að hafa heildarhagsmuni í huga og megi ekki láta ekki hreppapólitík ráða för.

Þess má geta í lokin að áratuga ófriður hefur ríkt um Landsmótahald hestamanna. Hvort þetta innlegg formanns Fáks á eftir að lægja þær öldur á hins vegar eftir að koma í ljós. Lesa má pistilinn í heild HÉR.