sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fákur er ekki að yfirtaka Landsmótin

Jens Einarsson
3. febrúar 2010 kl. 13:58

Segir Bjarni Finnsson, formaður Fáks

„Ég skil vel sjónarmið þeirra sem vilja halda Landsmót í dreifbýlinu. En Landsmót eru haldin annaðhvert ár. Fákur hafa áhuga á að halda þau annað slagið. En við erum alls ekki með neinar hugmyndir um að þau verði alfarið færð inn í borgina, eins og sumir virðast óttast,“ segir Bjarni Finnson, formaður Fáks.

„Tölur sem menn hafa gefið sér um útlagðan kostnað Reykjavíkurborgar vegna Landsmóts í Reykjavík eru ekki byggðar á neinum haldbærum forsendum. Borgin hefur heitið stuðningi við Landsmót, en hann verður fyrst og fremst í framlagi við snyrtingu á svæðinu.

Fákssvæðið er nánast tilbúið til að taka við Landsmóti eins og það er. Vellirnir hafa ákveðinn gæðastimpil, sem byggður er á reynslu. Á þeim var haldið Landsmót árið 2000 og hér hafa verið haldin Íslandsmót og Reykjavíkurmeistaramót, sem eru með stærstu mótum hér á landi á hverju ári miðað við þátttöku keppenda. Einu jarðvegsframkvæmdirnar sem fara þarf í eru við bílastæði og tjaldstæði, sem verður á bökkum Elliðaár. Á tjaldstæðinu verður boðið upp á raftengingar fyrir húsbíla og fellihýsi. Einnig verður snyrtiaðstaða og sturtur með heitu vatni.

Viðtal verður við Bjarna og fleiri sem tengjast Landsmóti hestamanna í næsta blaði Hesta&Hestamanna sem kemur út 18. febrúar.