mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fáksmenn éta ræktunina

Jens Einarsson
17. desember 2010 kl. 10:04

Hrossaræktardeildin boðar til hrossakjötsveislu

Fáksmenn í Reykjavík munu hefja nýja árið með hrossakjötsáti. Það er svokallað Limsfélag, sem er félag um stóðhest eftir því sem næst verður komist, sem stendur fyrir hrossakjötsveislu í samstarfi við hrossaræktardeild félagsins. Ekki er tekið fram í tilkynningu á vef Fáks hvort kjötið er af gripum félagsmanna, sem þó er ekki ólíklegt, eins og nú árar. Átið mun eiga sér stað í Fáksheimilinu laugardagskvöldið 8. janúar. Boðið verður upp á saltað og reykt hrossakjöt, hrossasperðla, kartöflur, uppstúf, rauðkál og grænar baunir. Kristinn Hugason, fyrrverandi hrossaræktarráðunautur, mun stýra átinu og fylgja því eftir með orðgnótt, eins og honum einum er lagið. Á eftir verður svo harmonikkuspil, myndasýningar, söngur og gleði. Þessi stórveisla kostar aðeins 2500 krónur. Hægt er að panta miða á netfanginu: fakur@simnet.is