miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fákar og Fjör 2013

15. apríl 2013 kl. 09:05

Fákar og Fjör 2013

“Stórsýningin Fákar og fjör 2013 verður haldin um næstu helgi í Léttishöllinni á Akureyri.   Sýningin er mjög fjölbreytt og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.  Boðið er upp á nokkur af hæst dæmdu hrossum landsins.  Má meðal annars nefna Hrannar frá Flugumýri, Gaum frá Auðholtshjáleigu og Trymbil frá Stóra-Ási sem allir eru með yfir 9 fyrir hæfileika í kynbótadómi.   Fjöldi annara frábærra kynbótahrossa kemur fram, mörg landsþekkt, en önnur að stíga sín fyrstu skref.  Efstu ræktunarbú síðasta árs í Húnavatnssýslum og Norðurlandi Efri-Fitjar og Sauðanes koma fram.  Haldnar voru tvær úrtökur fyrir sýninguna og komu um 60 hross.  Í þeim hópi voru úrvalshross sem koma fram á sýningunni.  Við í undirbúningsnefndinni erum þakklát fyrir að knapar og eigendur hrossanna leggi okkur lið með þessum hætti. 

Hópatriði hafa verið æfð og undirbúin.   Húnversku Dívurnar heiðra okkur nú í fyrsta sinn með nærveru sinni í Léttishöllinni og verður gaman að sjá þær, enda orðnar landsþekktar fyrir sitt atriði sem setur viðmið fyrir aðra.  Heimamenn hafa æft stíft og Eyfirsku Gæsirnar okkar eru með frábært atriði.   Yngri knaparnir okkar hafa líka undirbúið sig vel og það kemur æ betur í ljós hvílík lyftistöng Léttishöllin er fyrir okkur.   Átta gráir gæðingar hafa verið þjálfaðir og verður gaman að sjá átta hvíta hesta leika listir sýnar saman.   Félagar okkar á Húsavík mæta með Norðurljósatriði sem verður spennandi að sjá.
Kappreiðar verða í gegnum höllina og eru vegleg verðlaun í boði fyrir 1. sæti eða 50.000 kr.   Ljóst er að hallarmetið er í hættu.
Nýtt félagsheimili Léttis Skeifan á efri hæð í Léttishöllinni var vígt nýverið og erum við mjög stolt af þeirri aðstöðu.  Eftir sýninguna mun hljómsveit Jakobs Jónssonar spila fram eftir nóttu fyrir gesti og er sú skemmtun innifalin í miðaverði.  
Sýningin hefst klukkan 19:00 og er gert ráð fyrir að hún taki um 3 tíma.  Miðaverð er 3.000 fyrir 18 ára og eldri, 1.500 fyrir 13 til 17 ára og frítt fyrir 12 ára og yngri.  Á laugardaginn klukkan 13:00 verður sölusýning í Léttishöllinni.
Frekari upplýsingar og kynningar á hrossum og atriðum sem koma fram verða kynnt betur næstu daga.   Við bjóðum alla hjartanlega velkomna til okkar.
 F.h. Fáka og fjör 2013, segir í tilkynningu frá undirbúnigsnefnd“