miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fákar og fjör 2010

26. apríl 2010 kl. 18:19

Fákar og fjör 2010

Stórsýningin Fákar og Fjör fór fram í Top Reither höllinni á Akureyri á laugardagskvöldið 17. apríl síðastliðinn. Rúmlega 700 manns sóttu sýninguna sem tókst vel og var hestamannfélaginu Létti til mikils sóma. Töluverð afföll voru þó af hrossum vegna hóstapestarinnar sem geysaði um sunnanvert landið og hafði reyndar borist í Skagafjörðinn einnig.

Þrátt fyrir þetta náði stjórn sýningarinnar að setja saman góða dagskrá og áhorfendur skemmtu sér vel. Af einstökum hrossum voru nánast allir sammála um að Alfa frá Bleastöðum hefði staðið uppúr hvað getu varðar. Alfa er klárhryssa undan Orra frá Þúfu og Blúndu frá Kílhrauni.

Krakkar í Létti voru með flott atriði sem og synir Tryggva Björnssonar tamningarmanns á Blönduósi, þeir Aron Orri 13 ára á Braga frá Kópavogi og Kristófer Már 11 ára á Gammi frá Steinnesi. Fjölskylda Ólafs Svanssonar var með flotta sýningu og eins Baldvin Ari og dóttir hans Ágústa.

Margir góðir stóðhestar komu fram eins og t.d. Glymur frá Ynnri-Skeljabrekku, Borði frá Fellskoti og heimahestarnir Rammi frá Búlandi og Hrímnir frá Ósi. Gígjarsonurinn Fjölnir frá Litla-Hvammi sýndi flotta takta. Knapi á honum var Þorbjörn Hreinn Matthíassson.

Litli Garður/ Árgerði voru með flotta ræktunarbússýningu þar sem Tristan, Kiljan og Von fóru fremst og var Magni Kjartansson í Árgerði heiðraður fyrir sitt framlag til hestamennskunar.

Afkomendur Jóa Konn komu ríðandi inn í höllina og tóku svo lagið og var Kristján Jóhannsson stórsöngvari þar í fararbroddi. Keppt var í skeiði og sigraði Tristan frá Árgerði á tímanum 5,27 eftir harða keppni við Maur frá Fornhaga sem varð annar á 5,28 og Sindri frá Vallanesi varð svo þriðji á tímanum 5,30. Niðurstaðan er vel heppnuð sýning þó svo að inn á milli voru of löng atriði en þá er bara að bæta úr því fyrir næstu sýningu.


TEXTI: Rósberg Óttarsson 
MYNDIRNAR ERU FRÁ www.pedromyndir.is