laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýir eigendur - Faglegur hestamiðill

Óðinn Örn Jóhannsson
13. maí 2019 kl. 09:10

Eiðfaxi á Landsmóti

Vilja standa áfram að faglegri umfjöllun um íslenska hestinn.

Fyrsta tölublað Eiðfaxa leit dagsins ljós í júlí 1977 og eru því rúmir fjórir áratugir sem þessi miðill okkar hestamanna hefur komið út. Tilgangur útgáfunnar var að flytja fregnir af því sem gerðist á sviði hestamennsku, en fjölmiðar þóttu heldur tregir við fréttaflutning af málefnum íslenska hestsins. „Ég hafði baslað við það í nokkur ár að koma hestamennsku í blöðin, en það gekk misjafnlega.Hestamenn tóku umræðunni ágætlega en ritnefndir blaðanna voru ekki mjög hrifnar af þessu, fengu bara lykt af hrossaskít í nasirnar. Okkur þótti ástæða til þess að stofna sérstakt fréttablað um hestinn og úr varð Eiðfaxi," sagði Sigurjón Valdmarson, einn af stofnendum Eiðfaxa og fyrsti ritstjóri tímaritsins. Hann stofnaði málgagnið í félagi við Pétur Behrens, Gísla B. Björnsson, Sigurð Haraldsson, Árna Þórðarson, Sigurbjörn Bárðarson og Þorvald Árnason. Það hefur ýmislegt verið reynt á þessum langa tíma sem blaðið hefur komið út en umhverfi fjölmiðlunar hefur breyst mikið á þessum tíma og þá sér í lagi á síðastliðnum árum. Blaðið hefur mest allan tímann verið í eigu hestamanna sem haft hafa metnað til að standa að baki faglegum fjölmiðli um íslenska hestinn sem við öll unnum.

Á dögunum urðu breytingar á eigandahópi blaðsins. Það er skýrt í huga þessarra nýju eiganda að þeir vilja halda áfram að halda úti sterkum, faglegum miðli um Ísland, náttúruna en fyrst og síðast sameiginlegt áhugamál okkar allra sem er íslenski hesturinn. Nýir eigendur leggja jafnframt áherslu á að byggja ofan á það góða starf sem unnið hefur verið fyrir blaðið í gegnum tíðina og er það von þeirra að allir hestamenn á Íslandi, lærðir og leiknir, standi saman að því verki að styrkja og efla þessa sameiginlegu málpípu okkar hestamanna.

Með samhentu átaki nýrra eiganda, fagfólks í greininni, fagfélögum greinarinnar og hins almenna hestaáhugamanns er vonandi hægt að gera Eiðfaxa að þeim miðpunkti faglegrar umfjöllunar og heimildaöflunar sem er svo verðmæt.

Það er hlutverk fagtímarits að fjalla um líðandi stundu í hestamennskunni með faggreinum, viðtölum og birtingu á niðurstöðum móta og sýninga. Jafnframt er hlutverk miðils sem Eiðfaxa að festa á filmu þá viðburði sem hestamenn standa fyrir og mynda þannig ljósmyndasafn sem verður dýrmætara eftir því sem að árin líða. Myndasafn Eiðfaxa er stórt og þar eru til heimildir sem telja má að orðnar séu ómetanlegar.

Það er því von nýrra eiganda að allir unnendur íslenska hestsins hér á landi standi saman að því að halda úti sterku fagtímariti um íslenska hestinn sem fjallar um hestamenn og hestamennsku hér í upprunalandi þessa magnaða hests. Því að með samhentu átaki allra hestaáhugamanna og fagfólks verður Eiðfaxi sterkur miðdepill umfjöllunar um þessa mögnuðu skepnu sem íslenski hesturinn er. Saman tryggjum við að fjallað verði um allt litróf hestamennskunnar sem er sameignlegur snertiflötur tugþúsunda manna um heim allan.

Nýr framkvæmdastjóri, Gylfi Þór Þorsteinsson, hefur verið ráðin til að annast rekstur blaðsins og nýr ritsstjóri verður Gísli Guðjónsson. Saman munu þeir á næstu misserum efla það sem vel hefur verið gert hjá Eiðfaxa og aðlaga þennan fullorðna miðil að nútímafjölmiðlun. Leitað verður út fyrir blaðið eftir áhugaverðu og fræðandi efni, hestamönnum til skemmtunar og fróðleiks.