þriðjudagur, 19. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eyrún Ýr frá Hásæti

18. júlí 2019 kl. 11:00

Eyrún Ýr frá Hásæti

Fulltrúi Íslands í flokki sex vetra hryssna

Nú á sama tíma og landslið Íslands var kynnt til sögunnar var sagt frá því hvaða kynbótahross fara fyrir Íslandshönd á heimsleikanna. Ekki næst alltaf að senda út hæst dæmdu hrossin í hverjum flokki þar sem eigendur þeirra eru ekki tilbúnir að senda þau úr landi, þar sem þau hafa mikið gildi sem kynbótagripir, og eða þá að sala á þeim sé ekki örugg. Fáir þora að taka áhættuna á því að fara erlendis með óselda gripi.

Það er þó mikilvægt að við sendum á heimsleikana góða gripi í kynbótasýningar. Eiðfaxi ætlar að fjalla um öll þau hross sem við sendum til kynbótadóms.

Í flokki sex vetra hryssna fer út fyrir Íslands hönd, Eyrún Ýr frá Hásæti. Ræktandi er Fjölnir Þorgeirsson og Hásæti ehf, en Fjölnir er skráður eigandi. Knapi á Eyrúnu á Heimsmeistaramótinu verður nafna hennar Eyrún Ýr Pálsdóttir.

Eyrún Ýr frá Hásæti er undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum og Séð frá Hásæti. Herkúles er undan heiðursverðlauna hestinum Álfi frá Selfossi og Hendingu frá Úlfsstöðum en sú var undan Jarli frá Búðardal og Hörku frá Úlfsstöðum. Herkúles fer vel af stað sem ræktunarhestur og undan honum hafa nú þegar komið eftirtektarverðir kynbótagripir.

Móðir Eyrúnar er, eins og áður segir, Séð frá Hásæti. Séð er undan Júpiter frá Ragnheiðarstöðum en hann er undan Kolskeggi frá Kjarnholtum og Venus frá Skarði. Móðir Séðar er Sena frá Mið-Fossum undan Galdri frá Sauðárkróki og Bylgju frá Innri-Skeljabrekku. Séð er eina skráða afkvæmi móður sinnar. Séð er sýnd hryssa með 7,79 fyrir sköpulag, 8,05 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 7,95.

Eyrún Ýr var fyrst sýnd fimm vetra gömul af Viðari Ingólfssyni og fór þá strax í 1.verðlaun og fékk hún þátttökurétt á Landsmóti 2018 þar sem Viðar sýndi hana einnig.

Það var svo í vor þegar Teitur sýndi hryssuna sem hún fór í sinn hæsta dóm og er hún hæst dæmda sex vetra hryssa í heiminum í ár, þegar þetta er ritað. Hún hlaut fyrir sköpulag 8,33, fyrir hæfileika 8,78 og í aðaleinkunn 8,60. Hún hlaut hæst einkunnina 9,5 fyrir fet. Einkunnina 9,0 hlaut hún fyrir tölt, brokk, stökk, vilja og geðslag, fegurð í reið og fótagerð.

Það verður gaman að fylgjast með þeim nöfnum á kynbótabrautinni í Berlín og ekki nokkur spurning um að þær verði landi og þjóð til sóma.