sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eyjólfur að hressast

Jens Einarsson
28. september 2010 kl. 12:08

Stóðhross af fjalli flest við hestaheilsu

Stóðhross sem komin eru af fjalli reynast minna veik en flestir óttuðust, bæði í Skagafirði og í Húnaþingi. Hross af Vatnsnesfjalli voru flest við góða heilsu, feit og falleg. Ingveldur Konráðsdóttir á Böðvarshólum segir að þrjú eða fjögur trippi hafi hóstað smávegis á heimleiðinni og nokkur folöld séu með hor, en hress að öðru leyti.

Sigríður Lárusdóttir á Gauksmýri, sem á hross í sunnanverðu fjallinu, segir að svo virðist sem allflest hrossin í hópnum séu komin í gegnum pestina. Fáein séu með smávægileg einkenni.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, býr á Kálfsstöðum í Hjaltadal. Hún var í Laufskálarétt um liðna helgi og fylgdist með hrossum þar. Hún er bjartsýnni en áður varðandi hrossapestina.

„Ástand hrossanna var í meginatriðum gott. Þau litu vel út og virtust við góða heilsu. Ekkert hross hóstaði þegar þau köstuðu mæðinni eftir reksturinn í réttina. Yfir daginn heyrði maður stöku hósta, en ég held ég geti fullyrt að ekkert hross hafi verið mikið veikt,“ segir Sigríður.

„Mér sýnist að hrossapestin sé í mikilli rénun. Núna eru það síðköstuð folöld sem eru í mestri hættu. Tveimur til þremur mánuðum eftir köstun hætta þau að fá mótstöðu úr móðurmjólkinni og þá verða þau veikari fyrir og móttækileg fyrir pestinni. Það verður því að fylgjast sérstaklega vel með síðköstuðum folöldum. Það hafa nú verið krufin allnokkur folöld á Keldum. Helmingur þeirra er talinn hafa drepist úr hrossapestinni, en hinn helmingurinn vegna E-vítamíns- og Selen skorts. Það er því ekki síður ástæða til að huga að steinefnabúskapnum hjá hrossunum.“

Hólaskóli var með þeim fyrstu sem urðu fyrir barðinu á hrossapestinni. Ennþá eru hross þar sem sýna smávægileg einkenni, hóstakjöltur og glært eða hvítt nefrennsli. Sigríður segir að þau hross séu undir eftirliti. Baktarían sem veldur pestinni hafi ekki greinst í sýnum úr hrossunum og þau því ekki smitandi.

„Ég hef dálitlar áhyggjur af því núna þegar fólk fer að taka hross á hús í hausttamningarnar. Það eru fordæmi fyrir því að hross smitist aftur. Það er mikilvægt að fylgjast vel með og reyna að halda þeim hrossum sér, sem sýna greinileg einkenni, grænt hor og afgerandi hósta, því þau eru að öllum líkindum smitandi. Ég minni fólk á að sótthreinsa hesthúsin. Almennt hreinlæti er besta vörnin gegn hestapestinni, bæði fyrir menn og hesta,“ segir Sigríður.