fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eru Einhyrningar til?

23. nóvember 2013 kl. 18:00

Stikkorð

einhyrningar

Duft af horni skepnunnar nauðsynlegt í margar uppskriftir seiðkarla og undralækna.

 

 Þegar Evrópumenn tóku, í lok miðalda, að sigla um hnöttinn og kanna ókunn lönd sögðu þeir, þegar heim var komið, frá ýmsum kynjaskepnum sem þeir kváðust hafa séð í ferðum sínum. Þeir sögðu meðal annars frá þeirri fögru skepnu, einhyrningi, eins konar hvítum hesti með snúið horn þráðbeint upp úr enninu. Sögurnar komust á prent, málaðar voru myndir af einhyrningum og skepnan var í miklum metum. Duft af horni skepnunnar var nauðsynlegt í margar uppskriftir seiðkarla og undralækna. Harla margir kváðust eiga slík horn, og höfðu jafnvel til sýnis. 

Nú er ekki lengur getið um einhyrninga í vísindabókum, nema þá kannski meðal heimspekinga sem taka þá sem dæmi um það að fyrirbæri þarf ekki að vera til þó að til sé orð yfir það, og jafnvel þó tilvist þess sé rökstudd með sögusögnum af ýmsum toga. Enda er ekki lengur til að dreifa neinum sögum af einhyrningum sem sannfæra náttúrufræðinga.

En ekki er þar með sagt að þeir séu örugglega ekki til. Kannski, kannski er falinn dalur einhvers staðar í ókönnuðu fjalllendi þar sem einhyrningar spranga um frjálsir og fagrir. Og kannski er einhvers staðar pláneta sem er sérstakur griðastaður einhyrninga, og þangað hafa allir einhyrningar af jörðinni verið fluttir af því að guðir á geimförum sáu að þeim var ekki lengur vært á jörðinni. Kannski, kannski - en harla er það nú ólíklegt. Það er nefnilega ekkert sem bendir til tilvistar þeirra nema óstaðfestar sögur. En það er í sjálfu sér ekki hægt að útiloka algerlega að einhver sannleikur felist í slíkum kynjasögum.

 Heimildir: Vísindavefurinn