miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Erla á vit nýrra ævintýra

12. nóvember 2014 kl. 18:00

Erla frá Halakoti. Knapi Árni Björn Pálsson.

Hæst dæmda útflutta hross það sem af er árinu.

Erla frá Halakoti var flutt til Noregs í byrjun október. Hún er hæst dæmda hross sem flutt hefur verið út á árinu. Erla var hæst dæmda fjögurra vetra hryssa ársins 2012 þegar hún hlaut 8,26. Hún bætti svo nokkrum kommum við hæfileikadóm sinn árið 2013 og fékk 8,46 í aðaleinkunn sem reyndist einnig hæsti dómur sem 5 vetra hryssa fékk það árið. Hún hækkaði dóm sinn svo enn meira í ár, þegar hún hlaut 8,52 í aðaleinkunn. Erla hlaut þá 8,23 fyrir sköpulag og 8,71 fyrir kosti, þar af 9 fyrir vilja og geðslag, fegurð í reið og skeið.

Erla er mikill fengur fyrir norskt ræktunarstarf og verður áhugavert að fylgjast með ferli hennar ytra. Erla er í eigu Gunnars Gjerde en ræktendur hennar eru þau Einar Öder Magnússon og Svanhvít Kristjánsdóttir. Erla er undan Oturssyninum Þey frá Akranesi og Evu frá Leiðólfsstöðum sem er undan Adam frá Meðalfelli. Erla er fyrsta afkvæmi Evu sem fer í fyrstu verðlaun. Erla á eitt afkvæmi hérlendis, Maríuerlu frá Vesturkoti, sem fædd er meðgöngumóður árið 2013, undan Sæmundi frá Vesturkoti.