laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er sniðugt að veðja á sama hest?

12. júlí 2012 kl. 17:52

Er sniðugt að veðja á sama hest?

Alsystkinin undan Glettu frá Bakkakoti og Sæ frá Bakkakoti vöktu mikla athygli á Landsmótinu, en fyrir þá sem ekki vita eru þetta þau Arion frá Eystra-Fróðholti, Spá frá Eystra-Fróðholti og Glíma frá Bakkakoti. Blaðamaður fór því á stúfana og ákvað að taka saman nokkur dæmi um alsystkini. 

Gígjar og Gígja frá Auðsholtshjáleigu eru alsystkini en þau er undan Orra frá Þúfu og Hrafntinnu frá Auðsholtshjáleigu. En bæði eru þau með fyrstu verðlaun, Gígjar með 8,46 í aðaleinkunn og Gígja með 8,64. Þau eiga fjögur alsystkini í viðbót; Gyllingu frá Auðsholtshjáleigu en hún er með 7,80 í aðaleinkunn, Gjá, ósýnda hryssu fædda 2001, Gust, fæddan 2002 og Geisla fæddan 2005 en þeir tveir síðastnefndu eru staðsettir erlendis.

Undan Álfadís frá Selfossi eru til alsystkini, annars vegar Álfur, Álffinnur, Álfhildur og ónefndur hestur fæddur 2011 undan Orra frá Þúfu og hins vegar Álfasteinn frá Selfossi og Álfarinn frá Selfossi undan Keili frá Miðsitju. Álf þarf vart að kynna en hann hlaut heiðursverðlaun á Landsmótinu. Álffinnur er 5 vetra og er með 8,25 í aðaleinkunn. Afkvæmi Álfasteins vöktu mikla athygil á Landsmótinu í fyrra og voru það mjög atkvæðamikil á kynbótasýningum árið 2011 en Álfasteinn sjálfur er með 8,54 í aðaleinkunn. Álfarinn er 3 vetra og verður spennandi að sjá hvað hann mun gera í framtíðinni.

Ræktendur á Skeiðvöllum veðja greinilegt mikið á ræktun alsystkina en síðustu þrjú ár hafa þau haldið Ósk frá Ey undir Orra frá Þúfu en fyrir árri Ósk Orradótturina Ófelíu frá Holtsmúla. Ófelía hlaut í kynbótadómi sex níur; 9,0 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag, fegurð í reið, hægt tölt og hægt stökk.