miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er Randalín á leið til Sviss?

18. apríl 2012 kl. 11:58

Er Randalín á leið til Sviss?

Randalín frá Efri-Rauðalæk hefur skipt um eigendur. Guðmundur Tryggvason og Helga Árnadóttir hafa selt hana samkvæmt frétt vefmiðilsins fax.is.

Randalín hefur átt mikilli velgengni að fagna í keppnum í vetur undir stjórn Guðmundar. Saman sigruðu þau m.a. Bautamótið í tölti og töltkeppni KEA mótaraðar. Randalín er klárhryssa á sjötta vetri undan Þristi frá Feti og Kríu frá Krithóli. Hún var sýnd í kynbótadómi sl. vor og hlaut þá 9,5 fyrir tölt og 9 fyrir hægt tölt, vilja og geðslag, fegurð í reið og stökk,

Samkvæmt fax.is eru kaupendur Randalínar Bjarni Jónasson, tamningamaður á Narfastöðum og Markus Albrecht í Sviss, en Markus hefur greinilega smekk fyrir góðum gæðingum því í stóði hans leynast engin smá hnoss. Hann á m.a. fyrrverrandi heimsmeistari í tölti Feng frá Íbishóli og skeiðmeistarann Kóng frá Lækjamóti.

Þótt Guðmundur og Helga láti Randalín frá sér skortir þeim ekki töltara. Þau luma víst á alsystur Randalínar, árinu yngri, er ber nafnið Rósalín og mun hún vera keimlík systur sinni og mikið gæðingsefni.