þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er kreppan afstaðin í hestamennskunni?

odinn@eidfaxi.is
11. desember 2013 kl. 11:51

Reiðhöll í Norðfirði

Mikil uppbygging í aðstöðu tengdri hestamennsku víða um land.

Talsvert tal hefur verið um þá kreppu sem verið hefur í hestamennskunni að undanförnu en hestamenn líkt og aðrir hafa ekki farið varhluta af því hruni sem varð hér á landi.

Svo virðist sem greinin sé að taka við sér ef marka má þá framkvæmdagleði sem ríkir í greininni. Ekki færri en sjö reiðhallir eru nýbyggðar eða í byggingu, talsverð uppbygging hefur orðið bæði á Efri-Rauðalæk og á Ingólfshvoli auk nýbyggingar nokkurra hesthúsa.

Af þessum framkvæmdum má nefna nýja reiðhallir í Norðfirði,  Holtsmúla, Húsavík, Kjarri og Hornafirði.

Auk þess er Jón Árnason og fjölskylda að byggja upp reiðhöll og hesthús á jörðinni Fellsöxl undir Akrafjalli, en þau höfðu áður reist glæsilega aðstöðu á Akranesi. Sigursteinn Sumarliðason byggir nú reiðhöll við hesthús sitt á Selfossi. Framkvæmdir eru við hesthús og viðbyggingu á Syðri-Gegnishólum en þar að auki er ein glæsilegasta reiðhöll landsins að rísa á svæði hestamannafélagsins Spretts.

Þessi reiðhöll hjá Spretti bætir enn glæsilega aðstöðu félagsins og telja margir líklegt að sótt verði um landsmót þar í náinni framtíð.

Þessar framkvæmdir eru jákvæðar vísbendingar um að greinin sé að rísa upp úr þeim öldudal sem hún hefur verið í að undanförnu.