laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er hægt að halda Landsmót og Heimsmeistaramót á sama ári ? -

7. júlí 2010 kl. 11:09

Er hægt að halda Landsmót og Heimsmeistaramót á sama ári ? -

Eins og flestir vita hefur verið við lýði heiðursmannasamkomulag og vinnuregla að Landsmót og Heimsmeistaramót séu haldin sitt á hvoru árinu.  Næsta Heimsmeistaramót verður haldið í Austurríki árið 2011 og eru Austurríkismenn uggandi hvaða áhrif hugsanlegt Landsmót 2011 kunni að hafa á það mót. Landsambandi Hestamannafélaga barst í gær bréf frá FEIF þar sem FEIF lýsir áhyggjum sínum vegna áhrifa fyrirhugaðs Landsmóts árið 2011 á HM 2011.

L.H. og B.Í. hyggjast funda um málið á næstu dögum og freista þess að ná samkomulagi við FEIF og Austurríkismenn með það að markmiði að finna lendingu í málinu sem allir geta við unað, og þjóni best heildarhagsmunum hestamanna.

Frá því að ákvörðun um að slá af Landsmót 2010 var tekin hefur verið  ljóst að þarna gætu orðið árekstrar. Sú spurning vaknar hvort grundvöllur sé að halda Landsmót og Heimsmeistaramót á sama ári og svo Landsmót aftur 2012.

Einnig er vert að velta því fyrir sér hvaða áhrif það hefði á hugsanlegt Landsmót 2012 ef svo færi að HM og LM væru bæði haldinn 2011.

Greinilegt er að skoðanir meðal hestamanna eru skiptar á þessu máli eins og mörgum öðrum en mikilvægast hlýtur að vera að horft sé fram í tímann og ákvörðun í málinu verði tekin með langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi en þröngir skammtímahagsmunir verði ekki látnir ráða för.

Eiðfaxi mun fylgjast með málinu og birta fréttir af stöðu mála jafnóðum og þær berast. -hg