þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er Artemisia búin að sigra Meistaradeildina?

30. mars 2012 kl. 20:38

Er Artemisia búin að sigra Meistaradeildina?

Fallegar sýningar í forkeppni. Á ráslista voru margir afar hátt dæmdir stóðhestar frá vorinu, gæðingar sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppni.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson mætti með Gjafar frá Hvoli, sýningin var snyrtileg en brokkið mistókst og hann á enn mikið inni hjá Þorvaldi.

Guðmundur Björgvinsson var með öryggið uppmálað, reið Gamm frá Þúfu í 7,20 og er annar inn í úrslit.

Gaman var að sjá hæst dæmdi 6 vetra stóðhest á sl. landsmót, Konsert frá Korpu mæta til keppni. John Kristinn Sigurjónsson sat þennan mikla kostahest, sem skoraði 8,68 fyrir hæfileika í fyrra. Gangskiptingar voru fumlausar og Konsert hneggjaði til áhorfenda. Hins vegar fipaði þeim aðeins á skeiðinu og uppskáru 6,73 í lokaeinkunn og eru í níunda sæti sem stendur.

Dómararnir voru hins vegar ekki á bandi Söru Ástþórsdóttur, sem reið Völ frá Árbæ, en þau hlutu 6,50 í lokaeinkunn, eru ekki með sæti í úrslitum og misstu þar með möguleika sína á sigri í Meistaradeildinni.

Mikið mæddi á Artemisiu Bertus. Dómarar gáfu henni 6,97 fyrir hógvær og vandaða sýningu á Sólbjarti frá Flekkudal og eru þau fjórðu inn í úrslit.

Viðar Ingólfsson fór hins vegar mikinn á Má frá Feti, lagði kraft í sýninguna og uppskar eftir því, verðskuldaða 7,37 og er efstur inn í úrslit.

Jakob Svavar Sigurðsson mætti með Greifa Rökkvasyni frá Holtsmúla og átti í vandræðum með skeið sem var kraftlaust og fengu þeir 6,63 og rétt tórðu inn í B-úrslitum í 10.-11. sæti. Yrði ljóst að Jakob yrði að taka á hinum stóra sínum til að eygja von um titilinn.

Haukur Baldvinsson tók hins vegar alla von af Jakobi, því skemmtileg og leikandi sýning skilaði honum 7,03 eru hann þriðji inn í úrslit.

Það er hins vegar nokkuð ljóst að Artemisia Bertus er sigurvegari einstaklingskeppni Meistaradeildar, hvernig svo sem úrslit kvöldsins fara, nema hún geri ógilt. Til hamingju Misa!

Niðurstöður forkeppni:

 1. Viðar Ingólfsson        Hrímnir Már frá Feti 7,37
 2. Guðmundur Björgvinsson  Top Reiter / Ármót  Gammur frá Þúfu 7,20
 3. Haukur Baldvinsson      Auðsholtshjáleiga       Falur frá Þingeyrum 7,03
 4. Artemisia Bertus        Hrímnir Sólbjartur frá Flekkudal 6,97
 5. Þorvaldur Árni Þorvaldsson Top Reiter / Ármót  Gjafar frá Hvoli 6,83
 6. Elvar Þormarsson        Spónn.is        Skuggi frá Strandarhjáleigu 6,83
 7. Sigurbjörn Bárðarson    Lýsi    Stakkur frá Halldórsstöðum 6,83
 8. Sigurður Vignir Matthíasson     Ganghestar / Málning    Máttur frá Leirubakka 6,80
 9. John Kristinn Sigurjónsson      Hrímnir Konsert frá Korpu 6,73
 10. Sigurður Sigurðarson    Lýsi    Svalur frá Blönduhlíð 6,77
 11. Hulda Gústafsdóttir     Árbakki / Norður-Götur  Tryggur frá Bakkakoti 6,63
 12. Jakob Svavar Sigurðsson Top Reiter / Ármót      Greifi frá Holtsmúla 6,63
 13. Teitur Árnason  Árbakki / Norður-Götur  Þulur frá Hólum 6,60
 14. Eyjólfur Þorsteinsson   Lýsi    Kraftur frá Efri-Þverá 6,60
 15. Valdimar Bergstað       Ganghestar / Málning    Týr frá Litla-Dal  6,57
 16. Þórdís Erla Gunnarsdóttir  Auðsholtshjáleiga Hreggviður frá Auðsholtshjáleigu 6,53
 17. Hinrik Bragason Árbakki / Norður-Götur  Brestur frá Lýtingsstöðum 6,53
 18. Sara Ástþórsdóttir      Ganghestar / Málning    Völur frá Árbæ 6,50
 19. Lena Zielinski  Auðsholtshjáleiga   Patrik frá Reykjavík 5,87
 20. Ólafur Ásgeirsson       Spónn.is        Heimur frá Votmúla 5,87
 21. Sigursteinn Sumarliðason        Spónn.is        Geisli frá Svanavatni 5,77