laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn eitt heimsmetið hjá Daníel

27. júní 2012 kl. 17:35

Nói frá Stóra-Hofi, knapi Daníel Jónsson. Mynd/KGr

Nói frá Stóra-Hofi með 8,48 í aðaleinkunn v vetra

Stóðhesturinn Nói frá Stóra-Hofi setti heimsmet í aðaleinkunn í 4 vetra flokki stóðhesta í fordómi á LM2012. Knapi er Daníel Jónsson, sem ekki er óvanur að setja heimsmet þegar stóðhestar eru annars vegar. Enginn annar knapi hefur sett í þann stóra jafnoft og hann. Af hestum sem hann hefur sett heimsmet í aðaleinkunn á má nefna Þóroddsstaða hestana Þórodd, Núma og Þyrni, Sjóla frá Dalbæ, Stála frá Kjarri. Einhver fleiri hross eru á listanum.

Nói er undan Illingi frá Tóftum, sem Daníel sýndi í efsta sæti 4 vetra stóðhesta á LM2002 á Vindheimamelum. Illingur er undan Núma frá Þóroddsstöðum og Hríslu frá Laugarvatni, Gáskadóttur frá Hofstöðum. Móðir Nóa er Örk frá Stóra-Hofi, sem er undan Hrímbaki frá Hólshúsum og Hnotu frá Stóra-Hofi, sem er ein af betri kynbótahryssum landsins og meðal annars móðir stóðhestanna Góðs-Greifa, Fursta og Stíganda frá Sauðárkróki. Daníel sýndi einnig Örk (8,27) á LM2006 á Vindheimamelum.

Nói er með 8,37 fyrir sköpulag, þar af 9,0 fyrir höfuð og prúðleika. Hann er fljúgandi alhliða gæðingur með 8,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir skeið og vilja. Kostir upp á 8,56 og yfirlitið er eftir. Eigandi og ræktandi Nóa er Bæring Sigurbjörnsson á Stóra-Hofi.

Hrafn frá Efri-Rauðalæk sem kom efstur inn á mót í 4 vetra flokki með 8,28 þarf að slá heldur betur í ef hann á að ná Nóa, en hann jafnaði nánast einkunn sína í fordómi og er nú með 8,27 í aðaleinkunn.